Engar tilkynningar um vandræði í norðanhretinu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. jún 2025 09:46 • Uppfært 03. jún 2025 10:25
Engar tilkynningar hafa borist inn á borð lögreglunnar á Austurlandi vegna vandræða á vegum, foktjóns eða annars vegna óveðursins sem gengur yfir landið. Veðurviðvaranir í fjórðungnum falla fyrr úr gildi en upphaflega var gert ráð fyrir.
Grátt var í fjöll víðast á Austurlandi í morgun og á nokkrum stöðum í byggð, til dæmis á Egilsstöðum. Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar hafa einhverjir ökumenn lent í vandræðum á fjallvegum en verið reddað af nærstöddum.
Krapi er á Úthéraði og ofanverðum Jökuldal auk fjallvega eins og Öxi, Jökuldalsheiði og Vopnafjarðarheiði en þungfært yfir Vatnsskarð.
Engin stærri óhöpp hafa orðið og því engar tilkynningar til lögreglu. Þangað hafa heldur ekki borist tilkynningar um foktjón eða annað. Hins vegar hefur heldur hvesst eftir því sem liðið hefur á morguninn auk þess sem spáð er vaxandi rigningu.
Hins vegar falla appelsínugular viðvaranir fyrr úr gildi en reiknað var með. Þær áttu að gilda til hádegis en á Austfjörðum er þegar gengin í gildi gul viðvörun og það gerist á Austurlandi klukkan ellefu. Hins vegar hefur viðvörun vegna rigningar á Austurlandi verið lengd til klukkan fimm í nótt en hún átti áður að falla úr gildi á miðnætti.
Alhvítt var við Laugarfell á Fljótsdalsheiði í morgun. Hálendishótelið þar var opnað á sunnudag. Mynd: Elke Ringersma