Engar vísbendingar um hvað olli dauða hundanna í Breiðdal

Engar vísbendingar hafa komið fram um hvað olli dauða tíu hunda á bæ í Breiðdal í sumar. Rannsókn málsins hefur verið hætt að sinni. Rannsókn á upptökum eldvoðans í Vaski leiddi heldur ekki til afgerandi niðurstaðna.

Þetta kemur fram í svörum lögreglunnar á Austurlandi við fyrirspurnum Austurfréttar.

Hundaræktandi á bæ í Breiðdal kom að tíu hundum sínum dauðum í júlí eftir að hafa brugðið sér af bæ dagpart. Matvælastofnun fór með rannsókn málsins í upphafi og óskaði hún eftir krufningu á tveimur hudanna.

Það var gert hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Þá voru sýni send til eiturefnagreiningar hjá Rannsóknastofu háskólans í lyfja- og eiturefnafræði. Þar komu engar vísbendingar fram um hvað hefði getað drepið hundana.

Málið var þá sent áfram til lögreglu sem meðal annars skoðaði umhverfi hundanna, veðurfar og annað í kringum atburðinn auk þess sem rætt var við aðila sem mögulega gætu haft vitneskju um málsatvik.

Þar kom ekkert fram sem varpað gat ljósi á dánarorsök hundanna. Rannsókn málsins hefur því verið hætt en hægt er að taka hana upp að nýju komi fram ný gögn í málinu.

Engar sannanir um kettlingadauða


Sömu sögu er að ræða af rannsókn á kettlingum sem fundust dauðir í læk á Eskifirði í mars á síðasta ári. Matvælastofnun hóf rannsókn þess máls og lét kryfja dýrin en vísaði því síðan áfram til lögreglu. Af hennar hálfu var leitað að vitnum og hvort eftirlitsmyndavélar í nágrenninu hefðu numið eitthvað.

Krufningin sýndi að líklegast væri að kettlingarnir hefðu drukknað. Ábendingum var fylgt eftir en þær skiluðu ekki frekari upplýsingum.

Ekki hægt að staðfesta eldsupptök


Þá er formlegri rannsókn lögreglu á orsökum brunans í verslun og efnalaug Vasks á Egilsstöðum í september árið 2022 lokið. Vettvangur var rannsakaður af bæði lögreglu og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, auk þess sem skýrslur voru teknar af vitnum.

Ekki náðist að leiða með óyggjandi hætti í ljós hvernig eldurinn kviknaði. Gögnin sýna þó að enginn grunur er fyrir hendi um að eldurinn hafi kviknað vegna saknæmrar háttsemi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.