Skip to main content

Engin áform um annað en Norræna sigli áfram til Seyðisfjarðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. des 2023 18:36Uppfært 12. des 2023 18:53

Stjórnendur Norrænu segjast ekki hafa önnur áform en að Norræna sigli áfram til Seyðisfjarðar, eins og hún hefur gert síðan í júní árið 1983. Lengi vel var Seyðisfjörður eini fasti áfangastaður skipa Smyril-Line en undanfarin ár hefur það byggt upp mikla starfsemi með vöruflutningum til Þorlákshafnar.


„Við getum alltaf skoðað aðra staði en við höfum verið hér í 40 ár og erum mjög ánægð með samstarfið við Seyðfirðinga. Við vonum að það sé gagnkvæmt. Það er samt ekkert leyndarmál að vegurinn yfir Fjarðarheiði skapar vandræði. Fyrir utan hann erum við hæstánægð hér.

Við skoðum alltaf ný tækifæri, en sem stendur eru engin áform um annað en Seyðisfjörð. Við gætum allt eins bætt við öðru skipi sem siglir hingað,“ segir Jens Meinhard Rasmussen, framkvæmdastjóri Smyril-Line.

Nánar aðspurður svarar hann að nýtt skip til Seyðisfjarðar sé ekki á teikniborðinu en fyrirtækið sé alltaf tilbúið að skoða tækifæri sem gagnist bæði því og viðskiptavinum, til dæmis með vaxandi fiskeldi.

„Okkar sérhæfing er að koma hlutum fljótt frá A til B. Laxinn fellur vel að þeirri hugmyndafræði. Við flytjum mikið af laxi frá Færeyjum til Evrópu og víðar um heiminn. Við eigum pláss um borð í Norrænu fyrir meira. Sá lax sem slátrað er á Djúpavogi er mikið fluttur með Norrænu og eldisafurðir annars staðar af landinu í gegnum Þorlákshöfn,“ segir Rene Dahl Olsen sviðsstjóri flutningasviðs.

Ekki tími til að sigla til Þorlákshafnar


Siglingin frá Þórshöfn í Færeyjum til Seyðisfjarðar tekur 18 tíma á sumrin en 24 tíma á veturna. Á sumrin kemur ferjan vikulega til Seyðisfjarðar og stoppar í tvo tíma en á veturna stoppar hún í tvo daga. Jens bendir á að siglingaáætlunin sé það knöpp að mikið fleiri kostir séu ekki fyrir viðkomuhöfn því farþegar vilji komast sem fyrst í land.

„Útgerðin hér er mjög lipur og gengur vel. Ef við tökum Þorlákshöfn sem dæmi þá er siglingin þangað töluvert lengri og passar engan vegin inn í núverandi siglingaáætlun Norrænu. Við hugsum því Þorlákshöfn alls ekki í stað Seyðisfjarðar með Norrænu. Þar eru önnur tækifæri,“ segir Jens.

Myndi muna miklu að sleppa við Fjarðarheiðina


Eins og fyrr segir er Fjarðarheiðin helsta vandamál Smyril-Line á Seyðisfirði. Þeir eru þó gætnir í orðum þegar þeir eru spurðir um álit á íslenskum samgöngumálum. „Það er ekkert leyndarmál að vegurinn er áskorun fyrir okkur, en við segjum ekkert um hvert hann eigi að liggja. Það er trúlega annað sem ræður ykkar forgangsröðun í vegamálum en hagsmunir okkar. Við viljum gjarnan nýjan veg en við krefjumst hans ekki því við getum það ekki. Þá ákvörðun verður að taka hér á Íslandi,“ segir Jens.

„Það myndi muna mestu fyrir okkur að sleppa við heiðina. Við þurfum að hafa greiðfæran veg til að koma fiski um borð í skipið og frakt frá því. Þetta mál snýr kannski mest að fraktflutningunum þótt það skapi vandamál fyrir farþegana líka,“ bætir Rene við.

Fríið byrjar þegar fólkið kemur í ferjuna


Þótt farþegasiglingarnar séu það sem móti ímynd Norrænu þá er Smyril-Line fyrst og síðast að verða orðið flutningafyrirtæki. Það býður upp á að sækja vöru innan Evrópu og skila henni heim að dyrum. En það hefur líka lagt út í miklar fjárfestingar í ferðaþjónustu og á núna tvö hótel í Færeyjum. Tíminn í Covid-faraldrinum var nýtt til að endurnýja Norrænu með nýjum útsýnissal.

„Viðbrögðin eru virkilega jákvæð. Nú er meira pláss fyrir hvern farþega. Ég held að það sé hluti afleiðinga Covid-faraldursins, að fólk vilji hafa sína káetu. Í árdaga siglinganna valdist fólk úr ólíkum áttum saman í káetu, það gerist ekki lengur.

Fríið byrjar þegar fólk kemur í ferjuna. Hún er ekki bara flutningsmáti. Þess vegna er meiri eftirspurn eftir þægindum. Bestu káeturnar eru pantaðar fyrst. Farþegar vilja koma um borð, njóta útsýnisins, slaka á og borða góðan mat frekar en að fara á flugvöll með veseninu sem fylgir þar.

Margar ferjuleiðir eru mjög stuttar. Þá fæst hagnaðurinn úr sölu skattfrjáls varnings um borð og þess háttar. Við erum af annarri gerð. Við erum komin nær skemmtiferðaskipunum með því að bjóða upp á svæði til afslöppunar og góðan mat,“ segir Jens.

Farþegar vilja síður sigla um háveturinn


Í fyrra var ákveðið að Norræna myndi ekki sigla frá desember fram í mars. Í staðinn koma flutningaskip til Seyðisfjarðar en sem ekki taka farþega. „Til að halda Norrænu gangandi verður að vera ákveðinn fjöldi farþega. Það er hvorki gott fyrir fjárhag okkar né umhverfið að hún sigli tóm. Aðstæður á sjónum á milli Íslands og Færeyja eru mjög krefjandi á veturna. Það er ekkert sem segir að ákvörðunin verði ekki endurskoðuð síðar, en þetta er staðan núna,“ segir Jens.

„Innflutningurinn á þessum tíma er minni en á vorin og á sumrin, en útflutningurinn er ágætur. Þetta er fínt, en þó ekki nóg til að réttlæta að sigla Norrænu,“ bætir Rene við.

Rafvæðingin til fyrirmyndar fyrir aðrar hafnir


Á Seyðisfirði er nú unnið að rafvæðingu hafnarinnar og standa vonir til að henni verði lokið næsta sumar. Jens segir að þetta sé framfaramál því bæði útblástur og hávaði frá Norrænu og skemmtiferðaskipum sem þangað koma muni minnka. Með þessu verði Seyðisfjarðarhöfn fyrirmynd annarra í Evrópu.

„Við höfum fagnað þessum framkvæmdum og erum tilbúin að ráðast í töluvert kostnaðarsamar breytingar á ferjunni til að geta tengst. Hvort þeim verði lokið fyrir næsta sumar veltur á ýmsu. Ég held að þetta sé jákvætt verkefni sem fleiri hafnir geta tekið sér til fyrirmyndar. Þessi kostur er ekki til staðar í Færeyjum, Danmörku eða Rotterdam.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.