Skip to main content

Engin áform um lokun verslunar AB varahluta á Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. apr 2025 11:37Uppfært 22. apr 2025 11:38

Ekki stendur til að loka verslun AB varahluta á Egilsstöðum eins og stöku raddir hafa heyrst um síðustu vikur. Skipulagsbreytingar standa þó fyrir dyrum.

Heyrst hafa þær áhyggjur í nokkrum hópum undanfarið að hugsanlega stæði til að loka endanlega bílavarahlutaverslun AB á Egilsstöðum sem myndi hafa í för með sér að engin yrði samkeppni á þeim markaði í bænum lengur.

Loftur Guðni Matthíasson, framkvæmdastjóri AB varahluta, þvertekur fyrir að lokun standi fyrir dyrum enda gangi verslunin á Egilsstöðum vel og þar vilji fyrirtækið áfram bjóða góða þjónustu.

„Það er hins vegar rétt að við erum að vinna að nokkrum skipulagsbreytingum sem verið er að leggja lokahönd á af okkar hálfu og verða kynntar innan tíðar. En það er af og frá að við séum að loka versluninni enda reksturinn góður.“

Áfram verður samkeppni í sölu bílavarahluta á Héraði eins og verið hefur síðustu árin. Mynd Facebook/ABvarahlutir