Engin ákvörðun enn um höfuðstöðvar Lands og skógar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. okt 2023 10:33 • Uppfært 12. okt 2023 10:36
Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvar höfuðstöðvar nýrrar sameinaðar stofnunar Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, Lands og skógar, verður staðsett. Nýr forstöðumaður var skipaður fyrir mánuði.
Ágúst Sigurðsson verður fyrsti forstöðumaður Lands og skógar sem taka mun til starfa um næstu áramót. Níu manns sóttu um starfið og skipaði matvælaráðherra í embættið að undangengnu mati hæfisnefndar.
Ágúst er með doktorsgráðu í erfðafræði frá sænska landbúnaðarháskólanum. Hann var rektor Landbúnaðarháskóla Íslands frá 2004-14 þar sem hann stýrði sameiningu skólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins. Hann var síðan sveitarstjóri Rangárþings ytra frá 2014-22.
Höfuðstöðvar Skógræktarinnar hafa verið á Egilsstöðum frá því um áramótin 1989/90. Hún var fyrsta ríkisstofnunin sem flutt var með þeim hætti. Í umsögn Múlaþings um sameininguna er lögð áhersla á að höfuðstöðvarstofnunarinnar, í það minnsta skógræktarhlutans, verði áfram á Austurlandi. Þar verði frekar fjölgað störfum og lýst að starfsfólki landgræðsluhlutans yrði tekið fagnandi.
Að sama skapi ályktaði sveitarstjórn Rangárþins ytra, þar sem Ágúst var áður sveitarstjóri, um að efla skyldi starfsemina í Gunnarsholti, þar sem höfuðstöðvar Landgræðslunnar hafa verið. Þá lokaði Landgræðslan starfsstöð sinni á Egilsstöðum árið 2021 með þeim rökum að óhentugt væri að vera með einmenningsstöðvar.