Engin íbúakosning um leiðarval frá Fjarðarheiðargöngum
Meirihluti sveitarstjórnar Múlaþings vísaði í vikunni frá tillögu þess efnis að efnt yrði sérstaklega til íbúakosninga um leiðarval Héraðsmegin Fjarðarheiðarganga þegar þar að kemur.
Alls átta sveitarstjórnarmenn höfnuðu tillögunni meðan aðrir tveir sátu hjá. Sá eini sem var þessu fylgjandi var Þröstur Jónsson, Miðflokki, sem hafði sjálfur forgöngu um að óska eftir slíkri íbúakosningu gegnum byggðaráð Múlaþings í síðasta mánuði. Þeirri beiðni fylgdu þau rök að bæði sérstök könnun Gallup og síðar tæplega hundrað athugasemdir við aðalskipulagsbreytingu sýndu að hans mati ljóslega hversu margir stæðu gegn ákvörðun Múlaþings að fara suðurleiðina innfyrir bæinn.
Meirihlutinn hafnaði þessum rökum og bókaði að „vísa fyrirliggjandi beiðni um íbúakosningu um leiðarval frá Fjarðarheiðargöngum frá þar sem sveitarstjórn hefur þegar samþykkt breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008 - 2028 þar sem umrætt leiðarval er tilgreint.“