Skip to main content

Engin lögregla milli Fáskrúðsfjarðar og Hornafjarðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. feb 2022 08:45Uppfært 22. feb 2022 08:45

Enn hefur ekki verið fyllt í stöður lögreglu á Djúpavogi eins og raunin var fram til ársins 2020 en þetta gagnrýnir heimastjórn bæjarins og vill betrumbætur.

Staða lögregluþjóns með aðstöðu á Djúpavogi var auglýst fyrir tveimur árum árangurslaust og síðan þá hefur enginn laganna vörður verið staðsettur á svæði sem nær allt frá Hornafirði og að Fáskrúðsfirði eða alls um 207 kílómetra langa leið.

Heimastjórn bendir á að fólki, bæði innlendu og erlendu, sé að fjölga á umræddu svæði, þar búi fjöldi barna og straumur ferðafólks aukist ár frá ári. Þörfin á lögreglu á staðnum sé því töluverð.

Heimastjórnin segir ennfremur að húsnæði það sem lögregla hafði afnot af fram til 2020 sé gamalt íbúðarhús sem hafi lítið viðhald fengið og sé nánast ónýtt. Góð tækifæri eru á Djúpavogi til að bæta úr því og þar með gera starfið eftirsóknarvert.