Skip to main content

Engin mengun lengur til staðar í neysluvatni Stöðfirðinga

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. sep 2025 10:26Uppfært 18. sep 2025 10:43

Íbúar Stöðvarfjarðar þurfa ekki lengur að sjóða allt sitt neysluvatn eftir að mengun var staðfest í vatnsbóli bæjarbúa á miðvikudag í síðustu viku. Nýjustu niðurstöður Heilbrigðiseftirlits Austurlands sýna að allt er nú með felldu.

Fregnir af mengun á nýjan leik fyrir rúmri viku komu illa við heimamenn enda í annað sinn á tiltölulega skömmum tíma sem grípa þurfti til ráðstafana vegna magns saurgerla í vatnsbóli Stöðfirðinga fyrir ofan bæinn. Það gerðist einnig í lok júlí en þá veiktist nokkur fjöldi  þar sem tafir urðu á að tilkynning um mengunina bærist til fólks.

Af hálfu Fjarðabyggðar hefur staðið yfir vinna til að koma í veg fyrir ítrekaða mengun sem gjarnan kemst í neysluvatnið með rigningum en neysluvatn bæjarbúa er fengið úr nokkrum brunnum sem dreifðir eru í fjalllendi fyrir ofan þorpið. Þess vegna er ekki einfalt að geisla vatnið eins og gefið hefur góða raun annars staðar þar sem aðeins eitt vatnsból er til staðar. Þeirri vinnu er ekki alfarið lokið en áhersla er lögð á að komast fyrir vandamálið í eitt skipti fyrir öll.