Engin tilboð borist vegna nýs miðbæjarkjarna Egilsstaða
Þremur árum eftir að Múlaþing kynnti gjörbreytt nútímalegt deiliskipulag fyrir miðbæjarsvæði Egilsstaða og óskaði samhliða eftir áhugasömum samstarfsaðilum til þeirra uppbyggingar hefur lítið þokast. Engin tilboð hafa borist enn í neinn hluta verksins.
Það staðfestir Heiða Ingimarsdóttir, verkefnastjóri kynningar- og upplýsingamála sveitarfélagsins, við Austurfrétt en hún segir að sannarlega sé áhugi til staðar þó ekkert sé fast í hendi enn sem komið er.
Nýja skipulagið var staðfest snemma árs 2022 en með því var leitast til þess bæði að búa til raunverulegt lifandi hjarta þéttbýlisins en ekki síður færa það hjarta inn í nútímann með vistvænum hætti.
Skipulagsferlið tók langan tíma og með því mun ásýnd miðbæjarins gjörbreytast frá núverandi stöðu eins og sést til að mynda á meðfylgjandi teikningu. Þar gert ráð fyrir blandaðri íbúabyggð við hlið þjónustuaðila og verslana og áhersla lögð á menningu og falleg samkomu- og útivistarsvæði í og með. Nýr miðbæjarkjarni skyldi kallast Straumur og miðpunktur þess kjarna yrði göngugatan Ormurinn.
Á teikningunni sést þjónustumiðstöð N1 í forgrunni og þar fyrir aftan röð lágreistra bygginga sem hýsa bæði verslanir og íbúðir beint fyrir framan núverandi húsnæði Nettó og gamla kaupfélagshúsið.
Hjartað í miðbænum
Skortur á lifandi miðbæ í mörgum bæjarkjörnum Austurlands hefur lengi verið umræðuefni manna millum og sýnist sitt hverjum. Það er einmitt umræðuefnið á sérstökum opnum hádegisfundi á mánudaginn kemur á Reyðarfirði sem ber yfirskriftina Miðbæjarskipulag - og hvað svo?
Þar munu nokkrir fagaðilar kynna sína sýn og vinnu við miðbæjarskipulag bæði austanlands og annars staðar, hvað þurfi að gera og koma til svo hjarta hvers byggðalags verði raunverulega í miðbænum á hverjum stað. Það verið eitt meginstef í Svæðisskipulagi Austurlands frá árinu 2022 að aðalgötur og miðbæir Austurlands eflist sem þjónustu- og menningarmiðstöðvar til framtíðar. Á fundinn eru allir velkomnir.