„Enginn á að þurfa að bera fjárhagslegt tjón af þessu áfalli sem nóg er fyrir.”
Rótarýklúbbur Neskaupstaðar efnir til söfnunar til styrktar þeim sem lentu í fjárhagslegum skaða í þessum hörmulegum atburðum. Fólkið sem varð fyrir fjárhagslegum skaða þarf sjálft að bera hluta tjónsins. RÚV greindi frá því á dögunum að eigin áhætta í slíkum tjónum sé minnst 600 þúsund krónur eftir að Alþingi sexfaldaði þá upphæð fyrir fimm árum.
Guðmundur Höskuldsson, formaður Rótarýklúbbsins í Neskaupstað, segir að Rótarýklúbburinn hafi ákveðið að fara af stað með söfnunina til þess að styðja við fólk sem þarf að standa undir eigin áhættu á fasteignum og búslóðum sínum sem þau misstu í snjóflóðunum. „Þó að við séum öll tryggð hjá Náttúruhamfaratryggingum Íslands þá erum við það í raun og veru ekki því ef þú ert ekki með búslóðina eða bílinn tryggðan í kaskó þá er það ekki tryggt og fólkið þarf að greiða eigin áhættu,” segir Guðmundur.
Hver og ein fasteign ber með sér eigin áhættu. Fólk þarf að greiða í eigin áhættu 2% eða að lágmarki 400 þúsund í fasteignum. Ef fólk er með búslóð tryggða þá grípa Náttúruhamfaratryggingar það en fólk þarf líka að greiða þar eigin áhættu, 2% og að lágmarki 200 þúsund. „Þeir sem ekki eru með innbústryggingu fá ekki neitt, Náttúruhamfaratryggingar eru ekki fyrir alla, bara fyrir þá sem eru með tryggingar,” bendir Guðmundur á.
Guðmundur segir að það sé fullt af fólki sem er í viðbót við það áfall sem það er að missa heimili sitt og eignir er að lenda í verulegu fjárhagslegu tjóni sem engir opinberir aðilar eru að greiða.
Í tilkynningu frá Rótarýklúbbnum segir:
„Kæru Norðfirðingar og aðrir samborgarar, Rótarýklúbbur Neskaupstaðar hefur ákveðið að standa fyrir söfnun til styrktar þeim sem lentu í snjóflóðum hér í bæ mánudaginn 27. mars síðastliðinn.
Í ljós hefur komið og vakið furðu að Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) bæta tjón þeirra sem verða fyrir náttúruhamförum ekki að fullu þrátt fyrir fullyrðingar um annað. Hver fjölskylda þarf að taka á sig sjálfsábyrgð fasteignar sinnar og innbús. Auk þessa bæta þær ekki tjón á bifreiðum en þar eru á bak við ýmsar og ólíkar forsendur.
Vegna þessa hefur Rótarýklúbbur Neskaupstaðar ákveðið að efna til söfnunar til að styðja við bakið á þeim sem hafa orðið fyrir fjárhagslegum skaða af þessum hörmulegum atburðum og vonumst við því til verulegra jákvæðra viðbragða ykkar kæru samborgarar, að styðja við það fólk/fjölskyldur sem lentu í þessum hremmingum til að auðvelda þeim til að takast á við framtíðina og koma lífi sínu í fastar skorður aftur."
Söfnunin mun standa yfir í einn mánuð eða til 1. maí. Markmið söfnunarinnar er að bæta upp þessa eigin áhættu sem fólk þarf að greiða en vonin er að geta gert eitthvað meira fyrir fólkið. „Markmiðið er að úthluta í næsta mánuði. Við gerum okkur upp vonir að bæta eigin áhættu hjá fólki á húsnæði og innbúi og síðan er spurning hvað safnast mikið og hvort við getum gert eitthvað meira sem við viljum gjarnan gera svo engin þurfi að bera fjárhagslegt tjón af þessu áfalli sem nóg er fyrir.”
Við erum að setja okkur reglur í sambandi við úthlutun sem klárast i dag og verður í kjölfarið send tilkynning til sýslumanns. Búið er að skipa í úthlutunarnefnd sjóðsins en ákveðið var að best væri að fá utanaðkomandi aðila í það vegna þess að þetta er lítið samfélag og getur verið erfitt að segja til um úthlutanir. Úthlutunarnefnd sjóðsins skipa þau Snorri Styrkársson sem er fjármálastjóri Fjarðabyggðar, Magnús Jóhannsson sem er skrifstofustjóri Sparisjóðsins og stjórnarformaður SÚN og Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sem er að hefja störf sem framkvæmdastjóri hjá Austurbrú. „Við ætlum að setja eins skýrar reglur og hægt er svo það verði ekkert mál að koma úthlutunum til skila á sanngjarnan hátt,” segir Guðmundur að lokum.
