Enginn byggðastyrkur austur á land
„Þó mörg verkefni fyrir austan væru góðra gjalda verð þá er nefndinni ætlað að forgangsraða fjármunum til svæða sem annaðhvort teljast til brothættra byggða ellegar svæða sem búa við einhvers konar skort á þjónustu í víðu tilliti,“ segir Sigurður Árnason, sérfræðingur hjá Byggðastofnun.
Sigurður er formaður nefndar Byggðastofnunar sem gerði tillögur um úthlutun 120 milljóna króna til eflingar byggða landsins samkvæmt svokölluðu C.1 verkefni stjórnvalda. Innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, úthlutaði styrkjunum og fór í einu að ráðleggingum nefndarinnar. Engin verkefni á Austurlandi fengu þar náð fyrir augum.
Sigurður segir að úr vöndu hafa verið að ráða fyrir nefndarmenn sökum þess að alls 24 umsóknir um styrk bárust nefndinni og heildarupphæð þeirra óska alls um 816 milljónir króna næstu fjögur árin. Það sé töluvert hærra en það fjárframlag sem standi til boða frá ríkisvaldinu.
Átta verkefni hlutu styrk að þessu sinni en þann hæsta, rúmar 32 milljónir, fékk Fjallabyggð til nýsköpunar- og þróunarverkefnis í öldrunarþjónustu í sveitarfélaginu.
Mynd: Nánast allir landshlutar nema Austurland fengu sérstaka styrki til sértækra verkefna sóknaráætlunarsvæða sem ríkisstjórnin úthlutar. Mynd Austurland.is