Enginn fæst til að gera við Herðubreið
Ekkert tilboð barst sveitarstjórn Múlaþings vegna útboðs vegna lagfæringa á hinu merka félagsheimili og kvikmyndahúsi Herðubreið á Seyðisfirði.
Óskaði Múlaþing í vetur eftir tilboðum í lagfæringar á ytra byrði hússins en húsið hefur látið töluvert á sjá vegna múrskemmda undanfarin ár auk þess sem nokkuð lekur inn í bygginguna meðfram gluggum.
Múlaþing er ekki eina sveitarfélagið sem gengur illa að fá verktaka til starfa til hinna ýmsu verkefna sem þörf er á að vinna. Fjarðabyggð lenti í því sama í vetur þegar engin tilboð bárust í fyrsta útboði í nauðsynlega stækkun leikskólans Dalborgar á Eskifirði.
Sveitarstjórn Múlaþings hyggst leita hófa að nýju meðal verktaka á næsta ári en einungis er hægt að vinna að endurbótum á Herðubreið að sumarlagi.
Bið verður á að nauðsynlegar viðgerðir geti átt sér stað á Herðubreið. Mynd GG