Enginn Miðflokkur í Fjarðabyggð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. apr 2022 12:32 • Uppfært 08. apr 2022 12:33
Miðflokkurinn býður ekki fram í Fjarðabyggð en flokkurinn hefur átt einn bæjarfulltrúa þar á þessu kjörtímabili. Tvö framboð verða á Vopnafirði og fimm í Múlaþingi.
Frestur til að skila inn framboðum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí rann út á hádegi. Kjörstjórnir hafa allt til mánudags til að staðfesta framboðin en innan þess tíma gefst framboðunum sólarhringur til að bregðast við athugasemdum, svo sem varðandi meðmælendur.
Framboð í Fjarðabyggð verða fjögur, líkt og árið 2018 en þau breytast. Miðflokkurinn skilaði ekki inn lista en flokkurinn á einn bæjarfulltrúa í dag. Vinstrihreyfingin-grænt framboð hefur skilað inn lista þar í fyrsta sinn auk Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Fjarðalistans.
Þær upplýsingar fengust hjá yfirkjörstjórn þar að farið verði nánar yfir framboðin á morgun og þá byrji sólarhringurinn að telja. Yfirkjörstjórn hittist á sunnudag til að staðfesta framboðin.
Á Vopnafirði bárust tvö framboð. Framsóknarflokkurinn býður fram eins og síðast en hvorki Betra Sigtún né Samfylkingin, sem eiga tvo fulltrúa hvort. Nýtt framboð, Vopnafjarðarlistinn, skilaði inn lista í morgun. Framboðið hefur ekki enn birt frambjóðendur sína. Það hefur óskað eftir listabókstafnum H. Þar er búist við að yfirkjörstjórn staðfesti listana á mánudag.
Í Múlaþingi eru sömu framboð og í kosningunum haustið 2020, fimm talsins. Vinstrihreyfingin – grænt framboð, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Austurlisti voru öll búin að birta framboðslista. Miðflokkurinn skilaði inn lista en hann hefur ekki enn verið opinberaður. Þar stefnir yfirkjörstjórn að staðfesta listana um hádegi á morgun.