Enginn vafi á að frumkvæðisstyrkir hafi haft hvetjandi áhrif á Stöðvarfirði
Lítill sem enginn vafi leikur á að frumvæðisstyrkir Byggðastofnunar til þeirra fjögurra byggðarlaga sem flokkast hafa sem Brothættar byggðir síðustu ár hafa haft hvetjandi áhrif innan þeirra allra. Þar á meðal er Stöðvarfjörður í Fjarðabyggð.
Ofangreint eitt meginatriði ársskýrslu Brothættra byggða 2024 sem birt var í dag en þar fær. Það verkefni gengur út á að reyna að stemma stigu við langvarandi fólksfækkun á tilteknum stöðum á landsbyggðinni en þar á meðal er Stöðvarfjörður auk Dalabyggðar, Strandabyggðar og Bakkafjarðar. Setti stofnunin alls 135 milljónir króna af eigin fjármagni til verkefnisins auk þess sem var eyrnamerkt til uppbyggingar í Byggðaáætlun.
Sjálf tekur skýrslan mið af þegar útgefnum ársskýrslum verkefnisstjóra á hverjum stað fyrir stað en jafnframt viðbótarefnis svo sem samantekta þessara sömu aðila á tiltekum þáttum verkefnisins.
„Vísbendingar eru um að verkefnið hafi haft jákvæð áhrif í þátttökubyggðarlögunum til þessa. Aukin virkni, samstaða íbúa og tilurð fjölda nýrra verkefna í byggðarlögunum eru dæmi um það. Fullyrða má að styrkirnir hafi haft hvetjandi áhrif í samfélögunum. Mörg verkefni hafa ýmist sótt í sig veðrið, eða jafnvel hafist í kjölfar styrkumsóknar.“
Stöðvarfjörður var formlega samþykkt inn í verkefnið 2022 og á síðasta ári samþykkti Byggðastofnun að framlengja styrkveitingar til þorpsins út árið 2026. Á þessu tímabili hafa fjölmargar hugmyndir heimafólks fengið brautargengi öll árin.
Í kafla sínum vegna Stöðvarfjarðar segir í skýrslunni:
„Verkefnið hófst formlega með íbúaþingi í mars 2022 og fjölmenntu íbúar á þingið. Vinnu að hinum ýmsu markmiðum miðar vel og í þó nokkrum tilvikum hafa markmið þegar náðst. Stöðfirðingar hafa nýtt sér verkfæri Brothættra byggða af miklum krafti. Styrkjum var úthlutað 2022, 2023 og svo í þriðja skiptið þann 21. mars 2024. Þá fengu 18 verkefni styrk, alls að upphæð 11,3 m.kr. Verkefnin eru fjölbreytt og má nefna brauðgerð, skiltagerð vegna útgerðar, útilíkamsræktartæki og fleira. Áfram var uppbygging í þeim fyrirtækjum sem starfandi eru í byggðarlaginu. Fyrirtækið Brauðdagar býður upp á ýmis konar brauðmeti. Kaffi Kvörn færir út kvíarnar í sölustarfi og nú á netinu. Atomic Analog bætir við sig tækjakosti og nú er meðal annars mögulegt að færa hljóðritanir á hljómplötur í litlu upplagi hjá fyrirtækinu og þá m.a. í tengslum við upptökur í Studio Silo. Einnig er unnið að uppbyggingu í annarri starfsemi innan Sköpunarmiðstöðvar, einkum er varðar standsetningu á rými sem hýsa mun Fræ, Sköpunareldhús í framtíðinni. Þá er unnið að því að koma upp rými til Innrömmunar og forvörslu á listaverkum í Sköpunarmiðstöðinni. Það sem helst stendur íbúum á Stöðvarfirði fyrir þrifum er að engin dagvöruverslun er starfrækt á Stöðvarfirði frá því að Brekkan var seld og er það mikill missir fyrir íbúa. Mikilvægt er að úr rætist hvað verslun varðar.“