Skip to main content

Enn deilt um skipulag vegna veglína frá Fjarðarheiðargöngum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. mar 2023 15:13Uppfært 07. mar 2023 15:17

Fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telja litið framhjá vilja íbúa á Fljótsdalshéraði við leiðarval frá veginum frá Fjarðarheiðargöngum. Fulltrúar Miðflokksins telja sig órétti beitta þegar þeir eru úrskurðaðir vanhæfir við umræður um málefnið.


Fyrir fundu umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings í gær lá tillaga um að auglýsa breytingar á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs sem felur það í sér að núverandi leið um Melshorn á aðalskipulagi verður tekin út.

„Það er ljóst að vegurinn mun ekki liggja um þetta svæði eins og hann er teiknaður á núverandi skipulag því það miðar við gangamunna við Steinholt,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, formaður nefndarinnar um breytinguna.

Núverandi áætlanir gera ráð fyrir að gangamunninn verði í landi Dalhúsa á Eyvindarárdal. Jónína segir að frekari vegtengingar við Melshorn fari inn í vinnu við nýtt aðalskipulag Fljótsdalshéraðs sem á að vera tilbúið árið 2025. „Það þarf að endurhanna vegtengingar á svæðinu meðal annars með nýja Lagarfljótsbrú og mögulega stækkun flugvallarins í huga. Þetta er því einn af þeim hlutum sem fara inn í gerð aðalskipulagsins.“

Skipulagsmál vegna ganganna hafa verið nokkuð umdeild. Vegagerðin hefur viljað fara inn fyrir bæinn, svokallaða Suðurleið. Fyrir fundinum í gær ná nýtt minnisblað frá VSÓ ráðgjöf þar sem Suðurleiðin hefur verið endurteiknuð og reynt að draga úr umhverfisáhrifum hennar.

Á hinn bóginn hefur verið talað fyrir svokallaðri Norðurleið, sem fer út fyrir Eyvindará. Einn hluti þeirrar vegagerðar var ný brú yfir ána við Melshorn, sem að minnsta kosti í bili hefur verið felld út af skipulagi.

Ósáttir við vanhæfi


Miðflokkurinn hefur talað helst fyrir þeirri leið. Í gær samþykkt samhljóða að áheyrnarfulltrúi flokksins, Sveinn Jónsson, væri vanhæfur. Samkvæmt fundargerð óskaði Sveinn eftir að umræður um veglínurnar væru færðar aftastar í dagskrá fundarins þannig hægt væri að finna annan fulltrúa. Við því var orðið en ekki tókst að finna annan fulltrúa. Tveir fulltrúar VG greiddu atkvæði með frekari frestun umræðunnar en hinir fulltrúarnir fimm í ráðinu gegn henni.

Vanhæfi Sveins byggir á að hann er bróðir Gunnars Jónssonar, bónda á Egilsstöðum en veglínurnar fara að miklu leyti um þá jörð. Skyldleikinn hefur einnig valdið því að þriðji bróðirinn, Þröstur, sem jafnframt er bæjarfulltrúi Miðflokksins, hefur verið úrskurðaður vanhæfur.

Þröstur kærði málið til innviðaráðuneytisins. Niðurstaða þess var að vísa kærunni frá og gera ekki athugasemdir við vinnubrögð Múlaþings við úrskurð vanhæfisins. Ráðuneytið brýndi þvert á móti sveitarstjórnarfulltrúa til að gæta bæði að eigin hæfi og annarra því þátttaka vanhæfs fulltrúa í undirbúningi, meðferð eða úrlausn máls geti gert seinni ákvarðanir ólögmætar eða ógildar með tilheyrandi tjóni fyrir sveitarfélagið og fleiri.

Þröstur gagnrýndi álitið í bókun á fundi sveitarstjórnar í byrjun febrúar. Þar segir hann að ráðuneytið hafi ekki kveðið upp neinn úrskurð um hæfi sitt heldur sent frá sér loðið orðalag á 13 síðum og ekki lagt mat á hvort rétt vinnubrögð hafi verið notuð gegn honum.

Hann sjái sér því ekki annað fært en halda áfram með málið innan stjórnsýslunnar því það sé fordæmisgefandi fyrir aðrar sveitarstjórnir. Annars sé búið að færa meirihlutum sveitarstjórna mikið vald í hendur sem stangist á við sveitarstjórnarlög.

Túlka eigi vanhæfisreglur sveitarstjórnarlaga þröngt þannig fulltrúar geti ekki notað þær sem afsökun til að koma sér hjá því að taka á erfiðum málefnum í fámennum byggðarlögum. Bókun Þrastar endar á því að hann telji meirihlutann í sveitarstjórn Múlaþings hafa sýnt valdníðslu því honum hugnist ekki sjónarmið hans.

Hvetja til aukins íbúalýðræðis


Þá nýtti Múlaþing tækifærið samhliða gerð skoðanakönnunar Gallup um þjónustu sveitarfélagsins til að kanna hug íbúa til valdra deilumála í þeirra nærumhverfi. Á Fljótsdalshéraði var spurt út í veglínurnar frá göngunum. 45% völdu norðurleiðina, 29% sögðust hlutlaus og 26 studdu suðurleiðina.

Í bókun sem fulltrúar VG í umhverfis- og framkvæmdaráði lögðu fram í gær, er lýst undrun á að svo virðist sem ekki eigi að líta til niðurstaða könnunarinnar. Fulltrúarnir segjast vilja hvetja til aukins íbúalýðræðis í málefnum sveitarfélagsins þar sem betra sé að kanna hug íbúa til stórra ákvarðana áður en þær séu teknar.

Fulltrúarnir lögðu fram bókunina við atkvæðagreiðslu um tillöguna um aðalskipulagsbreytinguna. Þeir greiddu atkvæði á móti henni en hún var samþykkt með fimm atkvæðum.

Mynd: Vegagerðin/Mannvit