Lítill stuðningur við suðurleið Fjarðarheiðarganga eða laxeldi í Seyðisfirði

Íbúar á Héraði vilja helst að norðurleið verði fyrir valinu frá væntanlegum gangamunna Fjarðarheiðarganga. Á Seyðisfirði lýsir yfirgnæfandi meirihluti sig andvígan fiskeldi í firðinum.

Þetta er meðal niðurstaðna í þjónustukönnun sem Gallup gerði fyrir sveitarfélagið Múlaþing. Niðurstöðurnar voru teknar fyrir í byggðaráði í vikunni og birtar á vef sveitarfélagsins í dag. Þar er bæði spurt út í ýmsa þætti í þjónustu Múlaþing en einnig álitamál í tilteknum byggðakjörnum. Yfir 500 svör bárust.

Heilt yfir eru íbúar sveitarfélagsins ánægðir því 82% segja það gott til búsetu en 6% vont. Ánægja er með umhverfið, þjónustu og íþróttaaðstöðu. Ánægja með leik- og grunnskóla dvínar milli ára. Er það eini þátturinn sem marktækur munur er á.

Íbúar Múlaþings eru þó ekkert ánægðari með sveitarfélagið sitt heldur íbúar annarra sveitarfélaga. Þeir eru þó ánægðari með umhverfi sitt sem og þjónustu við eldri borgara og barnafjölskyldur. Eins er heldur meiri ánægja með þjónustu við fatlaða heldur en annars staðar þótt það sé sá þjónustuþáttur innan Múlaþings sem fær næst verstu einkunnina, 45% segjast ánægð. Góður meirihluti, 64%, kveðst heilt yfir ánægður með þjónustu sveitarfélagsins.

Ánægja með þjónustu í sorphirðu hefur dvínað jafnt og þétt síðustu ár. 54% segjast óánægð en 26% óánægð. Er það sá þáttur sem næst flestir lýsa óánægju með en yfir 40% lýsti ekki sérstakri skoðun á þjónustu við fatlað fólk.

Skipulagsmál eru þau mál sem mest óánægja er með. 30% eru ánægð en 34% óánægð. Er það ögn meiri ánægja en í fyrra og ekkert mikið verri en fyrri ár samkvæmt samantekt í könnuninni.

75% á móti fiskeldinu

Það er líka svo að hitamálin, sem spurt er um í einstökum byggðakjörnum, flokkast helst sem skipulagsmál. Á Seyðisfirði er spurt hvort fólks sé hlynnt eða andvígt fiskeldi í sjókvíum. 75% segjast andvíg, þar af 53% alfarið andvíg. Á móti segjast 19% hlynnt því, þar af 14% mjög hlynnt. Sjö prósent lýsa hlutleysi.

Á Fljótsdalshéraði var spurt hvort íbúar vildu frekar norðurleið, sem fer út fyrir þéttbýlið á Egilsstöðum, sem vegstæði út frá Fjarðarheiðargöngum eða suðurleið, sem fer inn fyrir bæinn. 45% völdu norðurleiðina en 29% sögðust hlutlaus. Það þýðir að 26% völdu suðurleiðina, sem er samt sú leið sem meirihluti sveitarstjórnar og Vegagerðin hafa valið. Miðleið, það er núverandi vegur um Fagradalsbraut, er ekki meðal svarmöguleika.

Djúpavogsbúar voru spurðir hvort þeir vildu færa Eggin í Gleðivík þaðan. 62% vildu færa listaverkið en 35% halda því á sama stað. Heimastjórn hefur mótað þá stefnu að reyna að halda eggjunum á núverandi stað.

Á Borgarfirði sögðu 39% að Múlaþing ætti áfram að eiga allt það íbúðarhúsnæði sem það á þar, 42% höfðu enga skoðun, 15% vildu selja stóran hluta og 7% lítinn hluta. Gallup gerir þann fyrirvara að fáir hafi svarað spurningunni enda séu ekki margir íbúar á Borgarfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.