Enn engu nær um hvernig smitið barst á búið
Sérfræðingar eru enn ráðþrota gagnvart spurningunni um hvernig smitandi barkabólga barst í kýr á Egilsstaðabúinu á Völlum síðasta sumar. Ólíklegt er að henni verði nokkurn tíman svarað.
Búið er að slátra þeim kúm sem sýndu jákvæð viðbrögð við smitprófi. Sýni voru tekin úr þeim og þau eru greind á tilraunastöðinni á Keldum. Ræktun sýnanna tekur langan tíma.
„Ef tekst að einangra veiruna er veik von um að finna skyldleika við stofna í öðrum löndum, en það er ekki líklegt að við finnum hvernig þetta barst inn á búið,“ segir Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir nautgripa- og sauðfjársjúkdóma hjá MAST.
„Okkur finnst líklegast út frá smitdreifingunni í hjörðinni að smitið hafi komið fyrir nokkrum árum, 2006 eða 2007. Vissulega var mikil umferð um flugvöllinn á Egilsstöðum á þeim árum en sú tenging eru samt bara getgátur. Þessi veira lifir mjög stuttan tíma utan líkamans og því styttri tíma sem hitinn er hærri.“
Þorsteinn segir menn hafa einbeitt sér að sýnatöku úr gripum sem tengdust einangrunarstöðinni í Hrísey. Menn hafa þó verið á varðbergi gagnvart sjúkdómnum lengi og leitað að honum í nautum á nautastöðvum í Evrópu í rúm þrjátíu ár. Það sæði sem flutt var til Hríseyjar var úr nautum sem höfðu ekki sýnt nein einkenni.