Skip to main content

Enn heldur lúsmýið sig fjarri Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. ágú 2023 13:35Uppfært 29. ágú 2023 13:44

Hið illræmda lúsmý hefur um átta ára skeið valdið töluverðum ama og óþægindum meðal fólks í velflestum landshlutum en þess varð fyrst vart hérlendis á Suðvesturlandi 2015. Ekki hafa þó enn borist neinar fregnir af slíku á Austurlandi.

Það hefur Austurfrétt fengið staðfest hjá Náttúrustofu Austurlands en þar á bæ hafa sérfræðingar ekki heyrt neitt um eða af lúsmýi hér í fjórðungnum þetta sumarið frekar en síðustu sumur.

Margir hafa haft á orði að furðulegt sé að þessi landnemi hafi ekki þegar gert vart við sig á Austurlandi enda lúsmýið þegar í nokkur ár truflað íbúa og gesti á Akureyri og töluvert hefur verið um varg þennan í Ásbyrgi síðustu tvö árin hið minnsta.

Í dag eru aðeins þrír staðir á Íslandi þar sem ekki hefur enn orðið vart lúsmýsins en það er á Vestfjörðum, Austurlandi og á hluta hálendis landsins en sérfræðingar hafa þó lengi spáð því að þessi tegund af mýi muni fyrr en síðar koma sér fyrir í öllu landinu.

Enn er óljóst hvar lirfur lúsmýs lifa og klekjast út en Náttúrufræðistofnun Íslands í samvinnu við Háskóla Íslands hefur hafið rannsókn á því hvaða staðir þar koma til greina.

Lúsmýið leggst til atlögu að nóttu til og verður fólk því ekki vart við bit fyrr en kláði og bólga koma fram. Bitin ekki hættuleg en geta valdið talsverðum óþægindum ef þau eru mörg. Mynd Umhverfisstofnun