Enn lokað yfir Möðrudal og Vopnafjarðarheiði en aðrir vegir að mestu færir
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. feb 2022 15:16 • Uppfært 22. feb 2022 15:16
Vegagerðin hefur nú opnað velflesta helstu vegi austanlands á ný eftir töluverða ofankomu í nótt. Undantekningarnar eru Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiðin.
Opnað var um Fagradal laust fyrir hádegið og mokstri lauk yfir Fjarðarheiði laust eftir hádegið. Mokstur stendur enn yfir á fáfarnari vegum en flestir hverjir þó sæmilega færir. Snjóþekja og töluverð hálka er þó til staðar víðast hvar.
Þjóðvegurinn yfir Möðrudalsöræfi er enn lokaður og sem afleiðing af því Vopnafjarðarheiðin líka. Nánari upplýsingar um opnun á þeim slóðum fást síðar í dag.
Aftur á að snjóa nokkuð í nótt og síðla dags á morgun samkvæmt spám Veðurstofu Íslands og nokkuð mun hvessa austanlands á ný annað kvöld.