Enn miklar efasemdir um heimildir fyrir bílastæðagjöldunum

Lögfræðingur Múlaþings lýsir miklum efasemdum um að fyrirhuguð gjaldtaka Isavia innanlandsflugvalla á bílastæðum við flugvöllinn á Egilsstöðum standist lög og stangist meðal annars á við jafnræðisregluna. Gjaldtakan hefst á þriðjudag, 18. júní.

Þetta kemur fram í áliti sem Jón Jónsson, lögmaður hjá Sókn, vann að beiðni byggðaráðs Múlaþings. Álitið lá fyrir fundi sveitarstjórnar á miðvikudag.

Jón hefur í greinum áður lýst efasemdum um gjaldtökuna, einkum á grundvelli þess að ríkið sé eigandi landsins en ekki Isavia Innanlandsflugvellir ehf., dótturfélag Isavia ohf. Austurfrétt greindi á þriðjudag frá svari Isavia innanlandsflugvalla um að með nýjum þjónustusamningi við ríkið, sem undirritaður var fyrir viku, hafi heimildin verið tryggð.

Skýra verður hvernig gjaldið er nýtt


Álit Jóns er líka dagsett á þriðjudag og hafði hann þá ekki fengið nýjasta þjónustusamninginn í hendur. Hann ítrekar því áfram þær athugasemdir að Isavia skortir þessa heimild. Hann útskýrir hana með því að ríkið sé eigandi landsins og það heyri undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Isavia sé aðeins umsjónaraðili þess. Almennt sé Isavia tryggðir fjármunir til rekstrar frá ríkinu en einnig heimildir til frekari gjaldtöku með lögum. Engin slík heimild hafi verið í eldri þjónustusamningum, en sá síðasti rann út um síðustu áramót.

En jafnvel þótt bílastæðagjaldið teljist til þeirrar þjónustu sem Isavia veitir, skorti eftir sem áður beina lagaheimild fyrir bílastæðagjöldunum. Ennfremur þyrfti Isavia að gera betur grein fyrir forsendum gjaldtökunnar því ákveðin lög eiga við um þjónustugjöld.

Þá er í álitinu bent á að fram til þessa hafi hvergi mátt finna heimildir eða vísbendingar um að fyrirhugað væri að auka gjaldtöku við flugvellina, svo sem í drögum að samgönguáætlun 2024-38. Þar sé heldur ekki að finna vísbendingar um sérstaka gjaldheimtu til að byggja upp mannvirki flugvallanna, en Isavia hefur sagt forsendu gjaldtökunnar þá tryggja eigi viðhald og bæta bílastæðin. Jafnvel þótt svo væri þá ætti að liggja fyrir heimild ráðherra til endurbótanna, þar sem eignin sé í eigu ríkisins ekki Isavia.

Hvers vegna stöðugjald þegar komið er varaflugvallagjald?


En Jón tekur fleira til, svo sem jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Hann telur engar augljósar fyrir að gjaldið sé aðeins tekið upp á þremur af ellefu innanlandsflugvöllum Isavia Innanlandsflugvalla, það er á völlunum á Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík. Ekki sé hægt að verja gjaldtökuna með því að um varaflugvelli millilandaflugs sé að ræða, enda hafi nýverið verið lagt á sérstakt gjald til að tryggja uppbyggingu þeirra.

Til viðbótar við varaflugvallargjaldið innheimti Isavia þegar farþegagjald. Útskýra verði nánar hvernig hann sé nýttur því til þessa hafi verið litið svo á að hann nýttist í það viðhald fasteigna sem Isavia sé ætlað að sinna.

Þá er bent á að ráðherra hafi ekki enn sett reglugerð, eins og honum er heimilt samkvæmt umferðarlögum, um gjaldtöku af bílastæðum í eigu ríkis eða opinberra aðila. Ekki sé hægt að túlka gjaldheimtu Isavia sem bílastæðaþjónustu frekar en stöðugjald, þar sem bílar megi sanda ótímabundið og gjaldið byrji eftir ákveðinn tíma.

Ekki brugðist við meintum vanda á hóflegan hátt


Jón ber gjaldtökuna einnig saman við gjaldheimtuna við stöðugjöld sem innheimt eru við Háskóla Íslands og Landsspítalann. Þau séu ekki sambærileg því gjöldin við þá staði eigi að koma í veg fyrir að stæði nærri byggingum séu teppt í lengri tíma. Við flugvellina sé frekar verið að bregðast við þegar bílar standi um lengri tíma því gjaldtakan byrji ekki fyrr en eftir ákveðinn tíma og engin takmörk séu á hve lengi bílarnir standir. Sé það hins vegar tilgangurinn að koma í veg fyrir að bílar standi mánuðum saman við flugvellina þá sé hægt að fara hófsamari leiðir í því með strangari reglum og eftirliti.

Jón bendir einnig á að líkur séu á að gjaldheimtan hækki kostnað við ferðir og þar með þjónustu sem aftur grafi undan samkeppnishæfni Austurlands. Á Egilsstöðum hafi hvorki sveitarfélagið né fyrirtæki tekið stöðugjöld til þessa því Egilsstaðir séu þjónustukjarni Austurlands. Þess vegna þurfi aðgengi að bílastæðum að vera gott. Hætta sé á það skerðist þegar flugfarþegar leggi annars staðar til að spara sér bílastæðagjöldin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.