Skip to main content

Enn óvíst um gjaldtöku við Hafnarhólma næsta sumar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. okt 2023 10:47Uppfært 30. okt 2023 11:06

Ekki liggur enn fyrir með hvaða hætti, eða hvort það verður yfir höfuð, farið að innheimta gjald af ferðamönnum sem heimsækja Hafnarhólma á næsta ári.

Eyþór Stefánsson, formaður heimastjórnar Borgarfjarðar eystri og sveitarstjórnarmaður hjá Múlaþingi, segir flest enn á huldu með það í samtali við Austurfrétt. Tilraunaverkefni hefur staðið yfir við hólmann síðan miðsumars sem gengið hefur út á að ferðalöngum hefur boðist að reiða af af hendi frjáls framlag ef þeir svo kjósa fyrir að skoða hólmann fallega og lundamergðina sem þar dvelur. Til stóð að frjálsu framlögin yrðu eingöngu út þetta ár en svo yrði tekið upp fast gjald að hólmanum á næsta ári. Gjaldinu er ætlað að greiða kostnað sem til fellur vegna ferðamannafjöldans á svæðinu enda fylgir því nokkur kostnaður fyrir sveitarfélagið.

Eyþór segir sjálfur að tilraunaverkefnið hafi tekist sæmilega að hans mati. Eitthvað á aðra milljón króna hefur skilað sér með þeim hætti frá því í lok júní þegar verkefnið hófst. Ljóst sé þó að merkingar þurfi að bæta því margir skoði alls ekki skilti þau er minna ferðafólk á frjálsu framlög til að viðhalda staðnum. Hægt er að leggja inn peninga með sérstöku appi gegnum snjallsíma.

„Ég hef gert að gamni mínu að setjast niður og fylgjast með hvernig þetta gengur og það eru því miður færri en fleiri sem staldra við skiltin og kynna sér málið. Það er ekkert fastsett með næsta ár og reyndar ekki niðurneglt að við ætlum að byrja að rukka. Mér þykir líklegra að í vetur og vor munum við klára að gera þetta svo skiltin veki meiri athygli og engir komist hjá því að sjá skilaboðin. Taka þá stöðuna hvað kemur inn í kassann. Sjálfum þykir mér ólíklegt að þarna verði einhver vörður sem innheimti eða gangi eftir greiðslu og mér myndi líka betur að þarna yrðu teknar svona stikkprufur annars lagið ef það fer svo að við tökum upp gjaldtöku.“

Ferðamannastraumur að Hafnarhólmi hefur aukist jafnt og þétt en þeim straumi fylgir ákveðinn kostnaður sem standa þarf straum af. Mynd Austurland.is