Enn símasambandslaust á stöku blettum við þjóðveginn austanlands
„Það eru blettir á hættulegum svæðum á borð við Hvalnes- og Þvottárskriðum sem eru alveg sambandslausir og sömu sögu má segja efst á Axarveginum,“ segir Eiður Ragnarsson, starfsmaður heimastjórnar Djúpavogs.
Heimastjórnin hefur ítrekað áhyggjur sínar af því að enn sé gloppótt síma- og Tetrasamband á allnokkrum stöðum í grenndinni og hvetur sveitarstjórn Múlaþings til að ræða úrbætur hið fyrsta við þjónustuaðila. Ekki sé eðlilegt að símasambandslaust sé á stöku stöðum við eina þjóðveg landsins árið 2022. Það eigi við um veginn um Hvalnes- og Þvottárskriður, á nokkrum köflum í Hamarsfirðinum og tæpt samband er á nokkrum stöðum í Álftafirði.
Eiður segir að hinn almenni ferðalangur verði líklega ekki var við dauða bletti enda ekki um langa kafla að ræða. Öðru máli gegni þó um heimafólk sem á erindi um ýmsir þær slóðir við margvíslegar aðstæður og í ýmsum veðrum. Sjálfur þekkir hann dæmi þess að ökumaður hafi fest sig milli snjóflóða í Þvottárskriðum og verið sambandslaus. Það hafi endað vel en betra sé að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum málum.
Mynd: Ofanflóð eru ekki óalgeng í Hvalnes- og Þvottárskriðum hvort sem er að sumri eða vetri. Á veginum er engu að síður enn dauðir símasambandspunktar.