Skip to main content

Enn sömu þyngdartakmörk fyrir hendi í sjúkraflugi með flugvélum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. júl 2025 11:11Uppfært 08. júl 2025 11:15

Óvíst er hvort hægt er að afnema allar þyngdartakmarkanir í sjúkraflugi með flugvélum án umtalsverðra breytinga á öllu skipulagi þeirrar þjónustu og auknum kröfum um stærð þeirra véla sem sjá um sjúkraflug.

Ofangreint er svar núverandi heilbrigðisráðherra, Ölmu D. Möller, vegna fyrirspurnar Berglindar Hörpu Svavarsdóttur, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi fyrir skömmu um hvort búið sé að gera ráðstafanir til að allir einstaklingar, óháð þyngd, geti komist í sjúkraflug með flugvélum.

Takmörk við 136 kíló

Mikla athygli, og nokkra reiði, vakti þegar fregnir bárust af því snemma vetrar 2023 að einstaklingi á Vopnafirði hefði verið neitað um flug með sjúkraflugvél því þyngd viðkomandi var yfir þeim mörkum sem búnaður vélanna þolir. Þar um að ræða svokallaðar Life-Port sjúkrabörur og börustæði en hámarksþyngd sjúklings á slíkum börum eru 136 kíló.

Þáverandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, sagði í kjölfar frétta um málið að innan hans ráðuneytis væri leitað lausna til að hækka þyngdartakmörk þess búnaðar sem til staðar væri og ekki útilokað að kannaður yrði möguleiki á búnaði sem þoli meiri þyngd. Ekki komst nein niðurstaða þó í málið áður en þeirri ríkisstjórn var slitið.

Grafalvarleg staða

Sitjandi heilbrigðisráðherra hefur fyrir sitt leyti ekki gefið til kynna sérstakar breytingar á stöðu mála heldur bendir á í svari sínu til Berglindar Hörpu að þyrlur Gæslunnar séu til taks ef sjúkraflugvélar geta ekki nýst. Engar þyngdartakmarkanir séu á flutningi fólks með þeim þyrlum.

Berglind Harpa furðar sig á að það skuli vera stórmál að haga sjúkraflugi með flugvélum þannig að allir geti nýtt sér.

„Það furðulega er að þær flugvélar sem sinna sjúkrafluginu geta alveg tekið sjúklinga sem eru þyngri en 136 kíló. Þetta snýst meira um þær börur sem notaðar eru hér sem hafa þetta óskiljanlega lága þyngdarviðmið. Mér finnst þetta alvarleg staða og vil að ráðherra beiti sér í því að fá aðrar börur með hærri viðmiðum í þær vélar sem sjúkrafluginu sinna ellegar að þau viðmið sem eru notuð verði einfaldlega hækkuð. Björn H. Gunnarsson, sjúkraflugssérfræðingur, hefur bent á að víða séu þessi þyngdarmörk mun hærri en hérlendis.“

Berglind bendir á að engin sé þyrla staðsett á Austurlandi og þangað sé lengst að fara fyrir þyrlurnar á Reykjavíkurflugvelli ef á þeim þarf að halda.

„Með vaxandi líkamsþyngd Íslendinga má spyrja sig hve stór hluti fólks frá landsbyggðinni og sérstaklega hér á Austurlandi er beinlínis í hættu vegna þessa í rauninni ef bráðaveikindi koma upp.“

Þurfi einstaklingur á landsbyggðinni á sjúkraflugi að halda þarf viðkomandi að vera undir 136 kílóum til að sjúkraflugvélar geti flutt viðkomandi. Annars þarf að kalla til þyrlu. Myndin tengist efninu ekki beint.