Skip to main content

Enn von á talsverðri úrkomu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. sep 2023 17:02Uppfært 19. sep 2023 17:05

Enn er viðbúið að 70-80 mm af úrkomu eigi eftir að falla þar sem mest lætur áður en styttir upp. Ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands hafa borist nokkrar tilkynningar um skriður af Austfjörðum.


Stærsta skriðan sem vitað er um féll niður farveg úr Strandartindi niður á Borgartanga í morgun. Ekki er ljóst hve stór hún er þar sem svæðið undir tindinum er lokað vegna skriðuhættu og slæmt skyggni yfir fjörðinn.

Skriðan fór niður í malarnámu á tanganum. Eitt tæki lenti í henni. Ekki er ljóst hvort tjón hafi orðið á því. Mögulegt er að skriðurnar hafi verið tvær niður farveginn.

Lítil skriða féll í námunda við bæinn Eyri í sunnanverðum Reyðarfirði. Þá hafa fallið skriður við gangamunna Norðfjarðarganga í Fannardal. Einhverjar þeirra ná niður undir veg.

Jón Kristinn Helgason, fagstjóri skriðuvaktar hjá Veðurstofunni, segir viðbúið að tilkynningum um skriður eða aðrar skemmdir í vatnsveðrinu á Austfjörðum síðustu daga, fjölgi þegar hægist um á morgun. Skyggni til fjalla hefur víða verið takmarkað og fólki ráðlagt að halda sig frá þekktum skriðusvæðum.

Áfram er spáð mikilli úrkomu og viðbúið að 70-80 mm eigi enn eftir að falla þar sem mest lætur. Mesta úrkoma á landinu frá miðnætti er á Eskifirði, 111 mm. Í Neskaupstað er úrkoman orðnir 105 mm. Þar hefur bætt verulega í þegar liðið hefur á daginn, 33,3 mm mældust þar frá klukkan 13-16 í dag.

Appelsínugul viðvörun er í gildi til miðnættis á Austfjörðum en gul á Austurlandi. Gul viðvörun tekur svo við fyrir firðina til klukkan fjögur í nótt.

Jón Kristinn segir von á að úrkoman standi fram til klukkan tvö í nótt. Eftir það fari að draga úr henni samhliða því sem kólnar í veðri og heldur lægir. Áfram verður fylgst náið með þróun mála eystra af hálfu Veðurstofunnar og almannavarna.

Mynd: Steinn Jónasson