Skip to main content

Erfiðleikum á Seyðisfirði megi ekki mæta með flýtimeðferð laxeldis

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. okt 2023 11:32Uppfært 26. okt 2023 11:38

Drjúgur tími síðasta sveitarstjórnarfundar Múlaþings fór í umræður um umdeilda bókun heimastjórnar Seyðisfjarðar frá því fyrr í mánuðinum þar sem heimastjórnin fór þess á leit við sveitarstjóra að óska eftir að Matvælastofnun setti leyfisveitingu vegna fyrirhugaðs laxeldis í firðinum í forgang. Bókunin vakti töluverða athygli þar sem stór meirihluti íbúa á Seyðisfirði leggst gegn fiskeldi

Sveitarstjórn samþykkti þessa ósk heimastjórnar með sex atkvæðum meðan þrír greiddu atkvæði gegn og tveir sátu hjá. Þröstur Jónsson, Miðflokki, kom fram með tillögu þess efnis að þar sem einn heimastjórnarmanna hefði dregið stuðning sinn til baka áður en kom að fundi sveitarstjórnar ætti að senda málið aftur til heimastjórnar svo komið gæti skýrari beiðni í kjölfarið. Meirihluti sveitarstjórnar hafnaði þeirri tillögu en litlu munaði því sex greiddu gegn meðan fimm voru þessu fylgjandi.

Tvískinnungur

Pétur Heimisson og Helgi Hlynur Ásgrímsson úr VG létu bóku sérstaklega af þessu tilefni að samþykkt meirihlutans á bókuninni væri ótrúverðug þar sem þessi sami meirihluti hafi hingað til ekki viljað taka afstöðu með eða móti fiskeldi. Rökin hafi verið að sveitarstjórn per se hafi ekki neina aðkomu að skipulagi tengt mögulega fiskeldi.

Tímbundnum alvarlegum erfiðleikum í atvinnulífi á Seyðisfirði vegna fyrirhugaðrar lokunar bolfiskvinnslu má ekki mæta með neins konar flýtimeðferð á slíku leyfisveitngaferli. Verði slíkt gert, þá væri það á kostnað annarra hagsmuna sem tekur langan tíma að meta og gæti haft skelfilegar afleiðingar. Dæmi um slíka hagsmuni eru öryggi skipasiglinga og sæfarenda [sem ekki var afgreitt í haf- og strandsvæðaskipulagi Austurlands], áhættumat erfðablöndunar sem er í uppnámi eftir fordæmalausan laxaflótta úr kvíum í Patreksfirði og þarf því væntanlega að gera að nýju, forsendur burðarþolsmats vegna laxeldis hafa verið gagnrýndar af Ríkisendurskoðanda sem vekur spurningu um hvort burðarþol þurfi að meta aftur. Við teljum því alla tilburði til að fá flýtimeðferð á afgreiðslu rekstrarleyfis (synjun eða samþykkt) vegna umsóknar Fiskeldis Austfjarða um að hefja laxeldi í Seyðisfirði óeðlilega.

Spilin á borðið

Björg Eyþórsdóttir, Framsóknarflokki og formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar, ítrekaði við samþykkt sína að ekki væri verið að biðja um að kasta neitt til hendinni af hálfu Matvælastofnunar. Hvorki með bókun heimastjórnar né samþykkt sveitarstjórnar. Allt snérist þetta um að fá skýra sýn á alla atvinnumöguleika í firðinum.

„Það er ábyrgðarhlutur að taka eina starfsgrein umfram aðra og það erum við alls ekki að gera með þessari tillögu. Við þurfum að snúa öllum spilunum á borðinu upp til að við sjáum hvað við höfum. Ef önnur atvinnustarfsemi sæti í röð að bíða eftir leyfisveitingu þá myndum við líka vilja svör við því. Það er líka ábygðarhlutur að útiloka eina atvinnugrein þegar atvinnulíf samfélags stendur völtum fótum. Í þeirri vinnu sem liggur fyrir starfshópnum megum við ekki gera það. Við heyrum, og ef ég tala fyrir mig sjálfa, þá deili ég áhyggjum 75% íbúa Seyðisfjarðar varðandi umgjörð starfseminnar og eftirliti með henni. Ég er hjartanlega sammála því að það má ekkert vaða áfram með bundið fyrir augun þegar kemur að jafn mikilvægu máli og náttúran okkar og lífríkið. Þess vegna finnst mér sú vinna sem hefur verið í gangi í matvælaráðuneytinu mjög mikilvæg og fagna því mjög að verið sé að vinna að úrbótum þegar kemur að sjókvíaeldi. Við viljum að vandað sé til verka og mikilvægt að matvælaráðherra fylgi því fast eftir að starfsemin fylgi lögum og reglum og að úrbætur eigi sér örugglega stað þegar þess reynist þörf. Þessi tillaga hér er hvorki fyrirmæli af neinu tagi fyrir starfshópinn sem er falið það verkefni að greina möguleikana sem eru í stöðunni. Né heldur einhvers konar inngrip í það lögbundna ferli sem leyfisveiting frá Matvælastofnun er.“