Skip to main content

Erfitt að leigja eða kaupa húsnæði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. apr 2025 16:39Uppfært 30. apr 2025 16:42

Hröð aukning virðist hafa orðið síðustu ár á að starfsfólk búi í húsnæði sem vinnuveitandi skaffar því. Algengast virðist það vera á meðal þeirra sem vinna í gisti- og veitingaþjónustu. Erfitt virðist vera að finna húsnæði til leigu eða kaups á Austurlandi.


Þetta kemur fram í nýjustu launakönnun AFLs Starfsgreinafélags. Að þessu þessi var spurt töluvert út í stöðu fólks á húsnæðismarkaði, bæði hver eigi húsnæðið, hvernig gangi að finna húsnæði og borga af því.

Mesta breytingin og hvað sú athygliverðasta síðustu ár er á fjölda þeirra sem búa í húsnæði á vegum vinnuveitanda. Það hlutfall mældist ekki árið 2018 og varla 2020, en var orðið 8,2% árið 2022 og hefur síðustu 2 ár verið um 11%.

Breytingar á öðrum búsetuformum eru fyrir hendi, en ekki nærri jafn miklar og þessar. Þeim fækkar nokkuð sem búa í foreldrahúsum, sveiflur eru sem áður á þeim sem búa í eigin húsnæði og um fjórðungur er á leigumarkaði, sem er nokkuð hefðbundið.

Þessi munur er mjög stéttbundinn, þannig búa yfir 40% þeirra sem vinna í gisti- og veitingarekstri í húsnæði á vegum vinnuveitanda. Ekki þarf að koma á óvart að eldra fólk á frekar eigið húsnæði en aldurshópurinn 25-34 býr helst í húsnæði vinnuveitanda, eða 27%.

Áhugi á að kaupa en fátt í boði


Svörin í könnuninni benda einnig til þess að erfitt sé að finna húsnæði á Austurlandi. Þegar spurt var hvort fólk teldi vera létt eða erfitt að finna húsnæði til kaups þar sem það byggi núna svöruðu 70% að það væri erfitt eða mjög erfitt. Aftur virðist staðan vera hvað erfiðust á Djúpavogi og í kringum Höfn en einnig er ljóst að staðan er snúin í kringum Egilsstaði.

Talsverður fjöldi hefur áhuga á að kaupa íbúðarhúsnæði, 65% svöruðu þeirri spurningu játandi. Mestur áhugi á að kaupa er á Egilsstöðum og Reyðarfirði. Fólk á aldrinum 35-44 ára hefur mikinn áhuga á að kaupa, þar sögðust 54% hafa mjög mikinn áhuga á að kaupa, enda væntanlega sá aldurshópur sem er tilbúinn að setjast að og vill komast í eigið húsnæði.

Enn erfiðara að finna leiguhúsnæði


Staðan versnaði þegar spurt var hversu erfitt fólk teldi það vera að finna leiguhúsnæði. Yfir 80% svöruðu að það væri erfitt eða mjög erfitt, þar af 49% mjög erfitt. Þau svör ná nánast þvert á byggðakjarnanna. Staðan virðist vera mjög snúin á Egilsstöðum þar sem enginn taldi vera auðvelt að finna leiguhúsnæði.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.