Erfitt að meta áhrif mögulegs blóðþorra í Berufirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. maí 2022 09:45 • Uppfært 30. maí 2022 09:47
Enn er beðið staðfestingar á veru blóðþorra í eldislaxi í stöð Fiskeldis Austfjarða við Hamraborg í Berufirði. Verði veiran staðfest mun það draga úr framleiðslu Fiskeldis Austfjarða fram á næsta ár.
Á föstudag var tilkynnt um að grunur hefði vaknað um veiruna í Berufirði. Verið er að afla frekari staðfestinga á sýnum sem þar hafa verið tekin úr fiski og er búist við þeim um miðja þessa viku.
Í tilkynningu Ice Fish Farm AS, móðurfélags Laxa og Fiskeldis Austfjarða, til Kauphallarinnar í Osló segir að erfitt sé að meta afleiðingar þess ef veiran er komin til Berufjarðar en að líkindum verði framleiðsla fyrirtækisins árið 2022 og 2023 minni en ráð var fyrir gert.
„Að finna veiruna er talið minnka heildaráhættuna í rekstrinum,“ segir í tilkynningunni þar sem bætt er við að fyrirtækið haldi áfram að kanna stöðuna og munu upplýsa um hana þegar frekari upplýsingar liggi fyrir.
Við Hamraborg eru 890.000 laxar í stöðinni sem eru að meðaltali 2,1 kíló að þyngd. Þeim þarf öllum að slátra eins fljótt og kostur er verði blóðþorrinn staðfestur. Veiran berst ekki með fiskafurðum og þykir því óhætt að nýta fisk, sem slátrað er vegna veiruna, til manneldis.
Síðustu dagar hafa verið erfiður fyrir rekstur Ice Fish Farm því skammt er síðan blóðþorri var staðfestur á þriðju og síðustu stöð þess í Reyðarfirði. Reyðarfjörður verður því um stund laus við allt fiskeldi en eldissvæði þurfa að minnsta kosti þriggja mánaða hvíld eftir slátrun.
Gengi í Ice Fish Farm féll nokkuð seinni part föstudags eftir að fréttir bárust af veirunni en hefur verið á uppleið aftur það sem af er morgni.