Skip to main content

Erfitt að rekja hvaðan sígaretturnar komu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. ágú 2023 08:40Uppfært 22. ágú 2023 08:44

Enn er óljóst hvaðan sígarettur, sem fundust í fjöru neðan við bæinn Högnastaði utan við Eskifjörð fyrir viku, komu. Hreinsun svæðisins er talin hafa tekist vel.


Íbúi á Eskifirði gekk fram á sígaretturnar á ferð sinni um svæðið seinni part þriðjudags. Þær voru dreifðar um vík á um 10-15 metra kafla.

Hafnaryfirvöld eru ábyrg fyrir aðgerðum vegna bráðamengunaróhappa innan hafnarsvæða en Umhverfisstofnun utan þeirra. Hafnarsvæðin eru skilgreind í hafnarreglugerðum og ná yfirleitt frá fjarðarbotni að fjarðarmynni.

Það var því Fjarðabyggð sem var ábyrg fyrir hreinsuninni síðasta miðvikudag. Á föstudag fóru fulltrúar Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands og Fjarðabyggðar yfir aðgerðirnar, sem gekk vel að sögn Austfirðinganna.

Samkvæmt lögum um mengun hafs og stranda er óheimilt að losa sorp eða farmleifar frá skipum á hafsvæði innan tólf sjómílna frá grunnlínu landhelginnar. Íslensk stjórnvöld nýta þannig allt það pláss sem þau hafa í alþjóðalögum til að hafa stjórn á hafsvæðinu umhverfis landið. Þá er óheimilt að losa í hafið þrávirk gerviefni sem fljóta eða mara í hafinu.

Í svari frá Umhverfisstofnun segir að ekki hafi verið hægt að rekja sígaretturnar til ákveðins aðila og engar upplýsingar liggi fyrir um hvaðan þær hafi borist.

Mynd: Svanbjörg Pálsdóttir