Erlend fjárfesting á Íslandi er orðin fjölbreyttari en áður
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. ágú 2023 15:10 • Uppfært 30. ágú 2023 15:12
Ímynd Íslands á alþjóðagrundvelli er nátengd ferðaþjónustunni. Hagur er fyrir fleiri útflutningsgreinar að tengja sig við hana á sama tíma og reynt er að breikka hana. Fjölbreytni hefur aukist í erlendri fjárfestingu hérlendis undanfarin ár.
Þetta var meðal þess sem fram kom í kynningu Péturs Óskarssonar, framkvæmdastjóra Íslandsstofu, á vinnustofu um vaxtatækifæri Austurland í útflutningi á á Egilsstöðum í dag.
Stofnunin, í samvinnu við landshlutasamtökin og Utanríkisráðuneytið stendur þessa dagana fyrir vinnustofum í öllum landshlutum um framtíðar útflutningstækifæri. Vinnan nýtist síðan við þróun útflutningsstefnu Íslands.
Sambærilegar vinnustofur voru haldnar við gerð stefnunnar árið 2019. Þá var niðurstaðan að Ísland yrði leiðandi í sjálfbærni og myndi einbeita sér að sex megin atvinnugreinum til útflutnings: orku og grænum lausnum, listum og menningu, ferðaþjónustu, sjávarútvegi, matvælum og hringrásinni og hugviti og nýsköpun.
Ímyndin tengist áfangastaðnum
Í upphafi fundarins í dag var meðal annars farið yfir hvernig til hefur tekist. Pétur sagði að ímynd Íslands erlendis væri oft nátengd Íslandi sem áfangastað ferðamanna. Þar væru landsmenn fórnarlömb eigin velgengni þar sem mikið hefði verið fjallað um landið sem áfangastað.
Hagur væri fyrir fleiri greinar að tengja sig þessari ímynd en að sama skapi hefði Íslandsstofa unnið að því að útvíkka hana. Kannanir eru gerðar árlega og sagði Pétur vinnuna hafa skilað merkjanlegum árangri.
Útflutningsstefnunni er fylgt eftir í gegnum Íslandstofu, sendiráðin og fleiri aðila. Pétur sagði samninga við systurstofnun Íslandsstofu í Svíþjóð um að íslenskir aðilar njóti sambærilegrar þjónustu og sænsk fyrirtæki í gegnum hana. Sá samningur hefði skilað miklum árangri. Þá hefðu verið haldnir yfir 100 viðburðir undanfarin ár út frá þeim áherslum sem skilgreindar voru 2019.
Pétur sagði útflutninginn hafa dregist saman í Covid-faraldinum en undnafarin tvö ár hefði orðið gríðarlegur vöxtur sem vart myndi sjást aftur. Hann fór einnig yfir þróun erlendra fjárfestinga hérlendis. Fyrst hefði hún einskorðast við afmörkuð stór verkefni en síðan orðið fjölbreyttari í smærri verkefnum og fleiri geirum. Flest þessara verkefna sköpuðu útflutningstekjur.
Verðmæti fiskeldis aukist mikið
Á vinnustofunni í dag er reynt að greina tækifæri til vaxtar í útflutningi á Austurlandi á næstu 5-10 árum, bæði hver þau eru og hve miklu þau geta skilað. Fyrir fjórum árum voru þau helst talin vera ferðaþjónusta, áliðnaður, fiskeldi og matvælaframleiðsla.
Brynhildur Georgsstjóri, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu, sagði útflutningsverðmæti í fiskeldi hafa aukist verulega á síðustu árum. Eins hefði verðmætasköpun í sjávarútvegi gengið vel. Af könnunum má sjá að íslenskur fiskur hefur jákvætt viðhorf. Þekkt er að öllum finnst eigin fiskur bestur, jafnvel íbúum landluktra ríkja, en sé spurt um hvaðan fisk fólk vilji þar á eftir komu fyrst Noregur og svo Ísland og Alaska.
Hún sagði vinnuna ekki bara snúast um að auka tekjurnar heldur líka bæta samfélagið með að skapa ný störf. Þá verði að gæta að því að því að ganga ekki á umhverfið, svo sem að íbúar telji ferðamenn vera orðna of marga og þar með yfirþyrmandi. Ljóst sé að á síðustu árum hafi tekjur á hvern ferðamann aukist en að sama skapi dreifst þeir enn afar misjafnlega um landið.