Skip to main content

Erlendir ríkisborgarar fimmtungur Austfirðinga

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. jan 2024 15:47Uppfært 23. jan 2024 15:47

Hlutfall erlendra ríkisborgara sem búsettir eru á Austurlandi hefur aukist um rúm sjö prósentustig á síðustu fimm árum. Erlendir ríkisborgarar telja nú tæpan fimmtung allra íbúa Austurlands.

Þetta kemur fram í í nýjum tölum Þjóðskrár Íslands um fjölda erlendra ríkisborgara með skráða búsetu hér á landi. Tölurnar miðast við 1. desember á síðasta ári.

Í tölum Þjóðskrár má sjá að fyrir fimm árum síðan, 1. desember 2019, var hlutfall erlendra ríkisborgara búsettra á Austurlandi tólf prósent. Það hlutfall hefur aukist jafnt og þétt á tímabilinu og var 1. desember síðastliðinn 19,2 prósent.

Hlutfall erlendra ríkisborgara er hið fjórða hæsta á Austurlandi þegar horft er til landshluta. Hæst er hlutfallið á Suðurnesjum, 29,9 prósent, og síðan á Vestfjörðum, 22,6 prósent íbúa. Hlutfall erlendra ríkisborgara búsettra á Suðurlandi er síðan eilítið hærra en á Austurlandi, 19,6 prósent. Hlutfall erlendra ríkisborgara búsettra á höfuðborgarsvæðinu er þannig lægra en á Austurlandi, en þar er það 18,2 prósent. Lægst er hlutfallið á Norðurlandi eystra, 11,3 prósent og á Norðurlandi vestra, 11,7 prósent.

Í sveitarfélögunum fjórum á Austurlandi er hlutfall íbúa með erlent ríkisfang hæst í Fjarðabyggð. Alls 22,1 prósent íbúa Fjarðabyggðar eru erlendir ríkisborgarar, 1.188 talsins. Næst þar á eftir fylgir Fljótsdalshreppur en erlendir ríkisborgarar búandi í hreppnum eru 22, sem jafngildir 21,4 prósentum allra íbúa hreppsins. Í Múlaþingi er hlutfallið 17 prósent en 912 erlendir ríkisborgarar eru búsettir í sveitarfélaginu.

Lægst er hlutfall íbúa með erlent ríkisfang í Vopnafjarðarhreppi, 12,4 prósent. Þar bjuggu í byrjun desember síðastliðins 83 erlendir ríkisborgarar.

Sé horft til allra sveitarfélaga á landinu var hlutfall erlendra ríkisborgara að jafnaði 18,7 prósent. Hlutfallið er afar breytilegt milli sveitarfélaga en hæst hlutfall erlendra ríkisborgara er í Mýrdalshreppi. Þar eru 61,7 prósent íbúa með erlent ríkisfang, 601 íbúi af 974 íbúum alls. Lægst er hlutfallið í Árneshreppi á Ströndum. Þar búa tveir erlendir ríkisborgarar af 53 íbúum alls, sem jafngildir 3,8 prósentum. Sé horft til fjölmennari sveitarfélaga, þar sem búa yfir 1.000 íbúar, er hlutfall erlendra ríkisborgara töluvert lægst í Garðabæ, sjö prósent.

Screenshot 2024 01 23 at 16.15.43