Eskfirðingur býður sig fram til formennsku í Starfsgreinasambandinu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. mar 2022 09:03 • Uppfært 22. mar 2022 09:03
Þórarinn G. Sverrisson, formaður stéttafélagsins Öldunnar í Skagafirði, verður annar tveggja frambjóðenda til formanns Starfsgreinasambandsins. Nýr formaður verður kosinn á þingi þess um helgina.
Þórarinn er uppalinn Eskfirðingur og þar býr stór hluti fjölskyldu hans. Hann hefur hins vegar sjálfur búið í Skagafirði í allnokkurn tíma.
Í tilkynningu segist hann vilja beita sér fyrir að sætta ólík sjónarmið með virku samráði og taka tillit til ólíkra radda og félaga.
„Framundan eru mikilvæg verkefni, meðal annars gerð kjarasamninga. Í þeirri vinnu skiptir miklu máli að félögin innan SGS gangi í takt og taki tillit hvert til annars, hvernig svo sem þau kunna að haga vinnunni við gerð samninganna. Það þjónar engum tilgangi að við eyðum kröftunum í innbyrðis átök og gagnast engum nema viðsemjendum okkar.“
Björn Snæbjörnsson hefur ákveðið að láta af formennsku í sambandinu. Í tilkynningu sinni hrósar Þórarinn Birni fyrir farsælt starf. Mótframbjóðandi Þórarins er Vilhjálmur Birgisson af Akranesi. Kosið verður á þingi SGS sem haldið verður á Akureyri um næstu helgi.