Skip to main content

Eskja kaupir í Fiskeldi Austfjarða

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. okt 2023 10:22Uppfært 05. okt 2023 10:26

Útgerðarfyrirtækið Eskja hefur fest kaup á litlum hlut í Ice Fish Farm, móðurfélagi Fiskeldis Austfjarða sem er með allt fiskeldi á Austfjörðum.


Þetta kemur fram í tilkynningu til norsku kauphallarinnar sem send var inn eftir lokun markaða. Félagið er skráð þar.

Eskja eignast 1,4% hlut í félaginu. Það er keypt af Eggjahvítu ehf., félagi Guðmundar Gíslasonar, framkvæmdastjóra félagsins. Fyrir hlutinn greiðir Eskja tæpar 622 milljónir króna.

Í tilkynningunni er rakið að í vor hafi verið tilkynnt um áform Eggjahvítu að selja tæplega 2,8% hlut sinn í félaginu til tengdra aðila. Frá því hafi verið horfið en þess í stað selt til Eskju. Eggjahvíta á áfram 6,2% í Ice Fish Farm.

Laxaslátrun er nú að hefjast á ný eftir að hafa legið í dvala þetta ár þar sem í fyrra varð að slátra öllum laxi fyrr en áætlað var eftir að veiran blóðþorri greindist í eldiskvíum í Berufirði og Reyðarfirði. Fyrst var settur út fiskur í Fáskrúðsfjörð en síðan Reyðarfjörð.

Að því er fram kemur í nýjasta ársfjórðungsuppgjöri Ice Fish Farm hefur ræktunin almennt gengið vel þótt leiðinlegt tíðarfar í vetur hafi sett strik í reikninginn. Áætlað er að slátra 6.000 tonnum í ár, um 1.000 minna en upphaflega var gert ráð fyrir.