Esther Ösp: Er í lagi að tryggja jöfnuð bara stundum?
Esther Ösp Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi Fjarðalistans í Fjarðabyggð, segir erfitt að réttlæta það fyrir íbúum sveitarfélagsins að það sé ekki allt eitt gjaldsvæði í almenningssamgöngum. Hún óttast að menn séu að fæla frá sóknarfæri með því að láta þá vilja ferðast lengst og nota kerfið sjaldnast borga hærra gjald en aðra.
„Ég er spurð: „Af hverju eruð þið að þrýsta á ríkið að jafna út hitt og þetta þegar þið getið ekki einu sinni gert það heima hjá ykkur?“ Ég vona að menn hugsi ekki sem svo að það sé í lagi að tryggja jöfnuð stundum.
Það er ekki réttlætanlegt að láta jaðarinn borga mest. Menn greiða sama útsvarið hvort sem þeir búa á Stöðvarfirði eða á Reyðarfirði,“ sagði Esther á bæjarstjórnarfundi á miðvikudag og spurði hvort menn ætluðu þá að lækka útsvarið á móti.
Sóknarfærin fæld frá?
Á fundinum samþykkti meirihlutinn tillögur um gjaldskrá almenningssamgangna í sveitarfélaginu sem fela það í sér hærra gjald eftir því sem farið er um lengri vegalengd. Eitt gjald er samt fyrir aldraða, fatlaða og hreyfihamlaða og afsláttur fyrir stórnotendur.
Esther spurði hvort bæjarfulltrúar óttuðust ekki að notendur væru fældir frá með svona gjaldskrá. „Við fælum ekki frá okkur stórnotendurna heldur sóknarfærin.“
Allir sitji við sama borð
Fulltrúar Fjarðalistans hafa hamrað á því að gjaldskráin mismuni íbúum og að það sé réttlætismál að sama gjald sé fyrir alla innan sveitarfélagsins.
„Menn tala um lífsgæði allra íbúa Fjarðabyggðar en hver trúir því þegar hann hefur séð svona tillögu? Þetta snýst um að allir íbúar sveitarfélagsins sitji við sama borð.
Ég hræðist það verulega hvaða skilaboð við sendum íbúunum okkar ef við ætlum að gera þetta svona. Þessi mismunun á milli íbúa er ekki bara eitt skref afturá bak – hún er mörg skref afturá bak.“
Krefjast jafnaðar af ríkinu en tryggja hann ekki heima
Fjarðalistinn hefur lagt áherslu á að Fjarðabyggð verði strax eitt gjaldsvæði. Því sátu þeir hjá við afgreiðslu tillögu um að kerfið yrði endurskoðað sérstaklega við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2014.
„Í sameinuðu fjölkjarna sveitarfélagi teljum við ekki eðlilegt að gert sé upp á milli íbúanna og þeir sem þurfi að sækja atvinnu, skóla eða þjónustu um lengstan veg, greiði mest. Við teljum heldur ekki trúverðugt að á sama tíma og bæjarfulltrúar þrýsta á ríkisvaldið um að njóta hinnar ýmsu þjónustu til jafns við höfuðborgarsvæðið, telji þeir sjálfum sér ekki bera skylda til að tryggja slíkan jöfnuð innan sveitarfélagsins,“ segir í bókun þeirra frá fundinum.
Þá hefur stjórn Samfylkingarfélags Fjarðabyggðar andmælt samþykktum á gjaldskránni og ítrekað kröfuna um eitt gjaldsvæði.
„Það er undarlegt að sveitarstjórnarmenn sem krefjast þess af ríkisvaldinu að það mismuni ekki fólki eftir búsetu, skuli ganga fram með þessum hætti og gera þeim sem lengst þurfa að sækja nauðsynlega þjónustu, erfiðast fyrir fjárhagslega.“