Eyrnakonfekt kemur austur
Tónleikarnir Eyrnakonfekt verða haldnir á Egilsstöðum og Eskifirði í febrúar. Um er að ræða flutning á nýjum lögum eftir Þórunni Guðmundsdóttur tónskáld.
„Á tónleikunum flytjum við fjöldan allan af samsöngslögum (dúetta, tríó og kvartetta). Lögin eru öll fyrir söngvara og píanó og skiptast í þrjá flokka eftir efni: Sumarlög, Matarlög og Lög um ástina. Flestir textarnir eru bráðhlægilegir. Orðaleikir og húmor eru allsráðandi, auk þess sem tónlistin er á léttum nótum og flytjendur nógu ruglaðir til að gera eitthvað skemmtilegt úr öllu sem lagt er fyrir þá,“ segir í tilkynningu.
Ennfremur segir að prógrammið hafi verið sýnt víða á höfuðborgarsvæðinu (á 15:15 tónleikaröðinni í Breiðholtskirkju, á Sönghátíð í Hafnarborg og Tónlistarhátíð Seiglu), á tónleikaröð Hallgrímskrikju á Saurbæ í Hvalfirði og á Þjóðlagahátíð á Siglufirði í ár.... „og fólk er meira eða minna hlæjandi allan tímann. Flutningurinn er klassískur og það kemur fólki skemmtilega í opna skjöldu að tefla þessu tvennu saman – fyndnum orðaleikjum og klassík.“
Tónleikarnir verða haldnir í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði 17. feb kl. 20:00 og Egilsstaðakirkju 18. feb kl. 20:00.
Þá segir að aðstandendur kunni styrktaraðilum ólýsanlega miklar þakkir fyrir: Fjarðabyggð, Múlaþing, Síldarvinnslan hf, Hótel Hérað, Vök og menningarsjóði FÍH
Þau sem kom fram eru:
Björk Níelsdóttir, sópran, sem valin var Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019 og tilnefnd til Grímuverðlaunanna sem söngvari ársins 2019.
Erla Dóra Vogler, mezzó-sópran, sem ásamt Evu Þyri gaf út diskinn Jórunn Viðar – Söngvar árið 2019 sem tilnefndur var til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins.
Eyjólfur Eyjólfsson, tenór sem tilnefndur hefur verið tvisvar á Íslensku tónlistarverðlunum sem söngvari ársins;.
Hafsteinn Þórólfsson, baritón, sem var tilnefndur sem einsöngvari fyrir flutning ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2017.
Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanóleikari, en auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri lagt mikla áherslu á flutning kammertónlistar og ljóðasöngs og komið fram með helstu helstu klasísku söngvurum landsins.
Mynd: Hópurinn sem stendur á bakvið Eyrnakonfekt./Aðsend.