Skip to main content

Fé flutt frá Stórhóli suður í Hornafjörð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. des 2010 15:10Uppfært 08. jan 2016 19:22

lomb.jpgBændur á Stórhóli í Álftafirði fluttu um 150 kindur suður til Hornafjarðar áður en til vörslusviptingar kom fyrir jól. Matvælastofnun hafði óskað eftir því við sýslumanninn að á annað hundrað fjár yrði tekið úr vörslu ábúenda þar sem ekki væri pláss fyrir það í húsunum.

 

Áður en til sviptingarinnar kom fluttu ábúendur um 150 kindur suður í Hornafjörð, samkvæmt heimildum Agl.is. Beiðnin um vörslusviptinguna var því afturkölluð.

Stórhóll komst fyrst í fréttirnar á sauðburði 2009 en alvarlegar athugasemdir voru þá gerðar búskapinn þar sem féð var illa fóðrað og dauðar skepnur höfðu ekki verið grafnar. Var það þó ekki í fyrsta skipti sem yfirvöld gerðu athugasemdir við aðbúnaðinn á bænum.

Málið fór fyrir dóm þar sem ábúendur voru dæmdir. Stefanía Lárusdóttir, ábúandi, hefur síðan haldið því fram í fjölmiðlum að hún hafi játað á sig illa meðferð á dýrum til að sleppa við frekari málarekstur.

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkti um sumarið að svipta ábúendur leyfi til búfjárhalds en varð að gefa eftir og setja í staðinn sett ströng skilyrði fyrir áframhaldandi leyfi. Fénu, sem þá var yfir 1000 yrði fækkað verulega og fóðrun bætt. Eftir vörslusviptingu var fénu fækkað í 760 kindur og nýr umsjónarmaður gekkst í ábyrgð fyrir búreksturinn fram á vor.

Fulltrúar Matvælastofnunar fóru í eftirlitsferð á Stórhól í desember. Féð reyndist vel fóðrað en athugasemdir voru gerðar við að ekki hafði verið reynt að lækna eða aflífa slasaða gripi. Húsakostur reyndist einnig þröngur.