Fáar athugasemdir við umhverfismatsskýrslu Gilsárvirkjunar
Engar stórvægilegar athugasemdir hafa komið fram vegna umhverfismatsskýrslu Orkusölunnar vegna byggingar Gilsárvirkjunar í Múlaþingi en frestur til að koma slíku á framfæri rennur út í vikunni.
Orkusalan áformar byggingu vatnsaflsvirkjunar ofarlega í Gilsánni í Eiðaþinghá en framkvæmdin felur í sér byggingu stíflu, stöðvarhúss auk vel rúmlega sex kílómetra langs vegs og aðrennslispípa. Virkjun þessi skal framleiða 7,6 MW af afli sem tengt verður dreifikerfi RARIK og miðast áætlanir við að gangsetja hana í lok árs 2027.
Þrír aðilar hafa hingað til gefið umsagnir við umhverfismatsskýrsluna en það eru Múlaþing, Umhverfis- og orkustofnun og Veðurstofa Íslands. Aðeins þeir tveir fyrrnefndu gera athugasemdir.
Í umsögn Múlaþings er staðfest að brugðist hafi verið við fyrri athugasemdum við matsáætlun virkjunarinnar en ítrekuð er bókun heimastjórnar Fljótsdalshéraðs frá því í byrjun júlí þar sem framkvæmaaðili er hvattur til að láta vinna hættumat vegna mögulegs stíflurofs og meta hugsanlegar afleiðingar þess á landnýtingu og búsetu neðan lónsstæðis.
Ábendingar Umhverfis- og orkustofnunar snúa að tvennu; annars vegar að það liggi alveg ljóst fyrir þar sem virkjunin hefur áhrif á vatnshlot Gilsár 1, Gilsár 2 og Selfljóts að áhrif á vatnsformfræðilega gæðaþætti verði metin að fullu áður en framkvæmdir hefjast. Þau áhrif hafa ekki verið metin að fullu að mati stofnunarinnar. Hins vegar ítrekar stofnunin mikilvægi þess að halda allri mengun við framkvæmdina í lágmarki.