Skip to main content

Fækkun skemmtiferðaskipa á Seyðisfirði en fjölgun á Borgarfirði og Djúpavogi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. okt 2023 15:22Uppfært 31. okt 2023 16:11

Yfirstandandi ár var algert metár í komum skemmtiferðaskipa til Austurlands en ekki er útlit fyrir að það met verði slegið miðað við þau skip sem hafa bókað koma sína 2024.

Sé ráð fyrir gert að öll þau skemmtiferðaskip sem heimsóttu Borgarfjörð eystri, Seyðisfjörð og Djúpavog á þessu ári hafi verið fullbókuð gestum og með hámarksfjölda skipverja lætur nærri að 287 þúsund einstaklingar hafi komið með þeim til þeirra þriggja hafna Múlaþings sem taka móti skemmtiferðaskipum. Miðað við sömu tölfræði fyrir næsta ár verður heildarfjöldinn um 276 þúsund alls.

Bókanir skemmtiferðaskipa fyrir næsta ár liggja að mestu fyrir og þar kemur í ljós að það er fækkun ferða til Seyðisfjarðar en það fjölgar á Djúpavogi og veruleg fjölgun skipa sem heimsækja ætla Borgarfjörðinn hinn eystri. Þannig fækkar komum slíkra skipa til Seyðisfjarðar úr 155 í 135 en á móti fjölgar skipakomum til Djúpavogs úr 60 í 74 og um vel rúmlega 100% til Borgarfjarðar eystri þangað sem 20 heimsóknir eru boðaðar en voru aðeins 9 þetta sumarið.

Að sögn Aðalheiðar Borgþórsdóttur, sem hefur umsjón með komum skemmtiferðaskipa fyrir hönd Múlaþings, er statt og stöðugt leitað leiða til að minnka áhrifin af skipakomum á heimafólk enda megi í því tilliti aldrei keyra um þverbak. Liðið metsumar hafi gengið stórslysalaust fyrir sig.

„Við höfum verið að reyna að hafa áhrif á komur þessara stóru skipa með því að jafna út komur þeirra hingað sé kostur á. Þannig að einn daginn eru kannski fjögur skip bókuð en engin daginn eftir þannig að það er verið að reyna að dreifa heimsóknunum. Það vill enginn hafa of mikið af skipum með of mikið af farþegum og það hafa verið mikil áköll um að þessu verði stýrt eins og kostur er og við verið að vinna talsvert við það.“

Fátt bendir þó til að komum skemmtiferðaskipa til landsins fækki neitt að ráði enda landið vinsælt heimsóknar og segir Aðalheiður að skipafélögin skipuleggi sig velflest að minnsta kosti tvö ár fram í tímann. Nú séu mörg þeirra búin að bóka komur 2026 og þar hefur áhrif að spáð er sólmyrkva í ágúst það ár sem ætti að sjást vel frá austanverðu landinu.

Í fámennum byggðakjörnum hefur vitaskuld veruleg jákvæð og neikvæð áhrif að fá yfir sig fleiri þúsundir ferðamanna í nokkrar klukkustundir stöku daga en unnið er að því að jafna það út svo ekki séu of mörg stór skemmtiferðaskip í höfn á sama tíma. Mynd Múlaþing