Færa starfsemi Tónskólans í Neskaupstað vegna myglu
Svo virðist sem mistök verktaka fyrir nokkrum árum síðan hafi ollið því að mygla hefur nú fundist í Tónskólanum í Neskaupstað en öll starfsemi hans næstu mánuði mun fara fram í Nesskóla.
Rannsókn á húsnæðinu sem framkvæmd var af verkfræðistofunni EFLU staðfesti myglu og bendir allt til þess að við framkvæmdir í húsnæðinu fyrir nokkrum árum hafi vatn komist undir gólfefni og valdið mygluskemmdum nú. Framkvæmdirnar á þeim tíma voru einmitt líka vegna myglu.
Verið er að meta skemmdirnar og umfang þeirra nákvæmlega að sögn fjölmiðlafulltrúa Fjarðabyggðar og í framhaldi af því verður hægt að leggja mat á kostnað og verktíma viðgerða. Ljóst þykir þó að lagfæringar verði það tímafrekar að engin frekari starfsemi verður í húsinu fram á sumarið.