Skip to main content

Færeyingar flykkjast í Franska safnið á Fáskrúðsfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. mar 2022 14:07Uppfært 29. mar 2022 14:13

„Það er búið að vera svo gaman með gestunum frá Færeyjum og það er annar eins hópur að koma að heimsækja okkur á morgun,“ segir Fjóla Þorsteinsdóttir, safnvörður hjá Franska safninu í bænum, en 150 færeyskir sjómenn og makar þeirra hafa eytt þar deginum í góðu yfirlæti.

Hópurinn sem kom í dag er þó aðeins helmingurinn af alls 300 manna hópi sem kom gagngert hingað til lands til að heimsækja safnið, söguna og Fáskrúðsfjörð sjálfan en Fjóla segir að þetta sé með stærri hópum sem komið hafa frá því hún hóf störf hjá safninu fyrir fimm árum síðan.

„Það eru tiltölulega náin tengsl milli Færeyja og Fáskrúðsfjarðar en hér komu mikið áður fyrr færeyskir sjómenn og þó nokkuð er um hálfa Færeyinga í bænum sjálfum. Við skiptum hópnum niður í fernt í dag; sumir skoðuðu safnið okkar, aðrir sóttu heim Norðurljósahúsið þar sem boðið var upp á hákarl og súpu, enn aðrir litlu kapelluna meðan restin fékk sér kaffi og meðlæti í Gallerí Kolfreyju. Það var mikil ánægja og gleði í hópnum með þetta og við auðvitað þakklát fyrir heimsóknina og góð kynni.“

Fjóla segir allt líta mjög vel út með bókanir fyrir sumarið. Bókanir séu orðnar fjölmargar og hún gerir fastlega ráð fyrir að framhald verði á heimsóknum Íslendingra sjálfra en landinn hefur aldrei áður heimsótt í sama mæli og síðastliðin tvö ár.

Mynd: Hluti mikils fjölda Færeyinga sem sótti Fáskrúðsfjörð heim í dag en annar slíkur hópur mætir á morgun. Mynd Fjóla Þorsteinsdóttir