Færri Austfirðingar en aðrir sækja lán til Byggðasjóðs
Byggðastofnun samþykkti alls tæplega 500 milljóna króna lán til alls átta aðila á Austurlandi árið 2022 samkvæmt ársskýrslu stofnunarinnar. Lánsumsóknir að austan eru almennt umtalsvert færri en annars staðar frá.
Á meðfylgjandi töflu má sjá stöðu lánasafns Byggðastofnunar í lok síðasta árs en svarta línan táknar fjölda viðskiptavina í hverjum landshluta fyrir sig. Þar kemur fram að útistandandi lán til verkefna á Austurlandi er rétt um tveir og hálfur milljarður króna. Sú upphæð þó aðeins farið til 47 aðila meðan samsvarandi upphæð til Vesturlands og Vestfjarða hefur dreifst á milli 58 og 68 aðila. Það eru hlutfallslega mun fleiri að sækja um og fá lán annars staðar frá.
Að sama skapi er stór munur á heildarlánaupphæðum. Til Suðurlands eru útistandandi rúmir fimm milljarðar króna í lán frá Byggðastofnun eða helmingi hærri upphæð en lánað hefur verið austur á land. Rúmlega fjórir milljarðar útistandandi á Norðurlandi vestra og lítið eitt lægri upphæð farið til verkefna á Norðurlandi eystra
Byggðastofnun hefur um hríð boðið sex lánaflokka sem sérsniðnir eru að verkefnum á landsbyggðinni og kjörin almennt betri en á almennum markaði. Stofnunin býður meðal annars 90% lán vegna kynslóðaskipta í landbúnaði eða umhverfisvænna verkefna og allt að 80% til fiskvinnslu í viðkvæmur sjávarbyggðum. Líklegt er að enn fjölbreyttari lánamöguleikar verði kynntir á næsta ári.