Fæstar veðurviðvaranir eystra
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. mar 2022 09:58 • Uppfært 07. mar 2022 09:58
Aldrei hafa verið gefnar út fleiri veðurviðvaranir í einum mánuði síðan litakóðakerfi var tekið upp árið 2017 heldur en í nýliðnum febrúar. Fæstar þeirra voru gefnar út á veðurspásvæðinu Austurlandi að Glettingi.
Alls voru gefnar út 137 veðurviðvaranir í febrúar. Á Austurlandi að Glettingi voru þær fimm, þrjár gular og ein appelsínugul. Á Austfjörðum voru þær sex, fjórar gular og sex appelsínugular.
Flestar voru þær á Suðurlandi, 22, þar af alls tvær rauðar. Tvisvar voru gefnar út gular viðvaranir fyrir landið allt. Til samanburðar þá voru átta viðvaranir, allar gular, gefnar út í febrúar í fyrra, samkvæmt samantekt Veðurstofu Íslands.
Uppruni lægðagangsins á Íslandi í síðasta mánuði var árekstur hlýs og raks lofts úr Mexíkóflóa og kalds heimskautalofts vestan við Grænland. Þá verða til lægðir sem hreyfast með háloftastraumum til norðausturs þar sem Ísland verður fyrir barðinu á þeim.
Í kaldara lagi
En þótt veðurfarið eystra hafi verið stöðugra en í öðrum landshlutum þá var það með kaldara móti sögulega séð. Á Egilsstöðum var meðalhitinn -3,7 gráður, sem er -2,7 gráðum undir meðalhita síðustu 30 ára og -3,9 undir meðalhita síðasta áratugar. Þetta var tólfti kaldasti febrúarmánuðurinn þau 68 ár sem þar hefur verið mælt.
Á Teigarhorni í Berufirði var meðalhitinn -1,2. Þar hefur oft verið kaldara, 35 sinnum en mælingarárin eru líka orðin 150. Frávik frá meðalhita síðustu 30 ára var -2°C og -3,1°C sé horft til síðustu tíu ára.
Á Dalatanga var meðalhitinn -0,2°C, frávikið -1,5°C miðað við síðustu 30 ár og -2,6°C miðað við síðustu 10 ár. Þar var mánuðurinn sá 20. Í röðinni yfir þá köldustu.
Það þó kannski kaldhæðnislegt að hæsti hiti mánaðarins var eystra, 9,5 stig í Neskaupstað þann 25. febrúar. Mesta frostið var -26,8 stig í Möðrudal þann fjórtánda. Þar mældist líka lægsti meðalhiti í byggð, -7,2 stig.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins var 1016,1 hPa á Egilsstöðum þann tíunda.
Úr annarri þeirra appelsínugulu viðvarana sem gefnar voru út eystra í febrúar.