Fagna frumvarpi sem eyðir lagalegri óvissu um leyfisveitingar til vatnsaflsvirkjana
Fjórir af fimm nefndarmönnum í byggðaráði Múlaþings taka heils hugar undir ályktun Samtaka orkusveitarfélaga og Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ætli að eyða lagalegri óvissu um leyfisveitingar til vatnsaflsvirkjana.
Þegar er vinna hafin í ráðuneytinu að lagabreytingum í þessa áttina í kjölfar dóms héraðsdóms Reykjavíkur um miðjan janúar um ógildingu virkjanaleyfis Hvammsvirkjunar. Nánar tiltekið heimild Umhverfisstofnunar til að breyta tilteknu vatnasvæði í svokallað vatnshlot sem er sú flokkun stofnunarinnar sem er forsenda stjórnar vatnamála í landinu og grunnforsenda fyrir virkjunarleyfi umræddrar virkjunar.
Bæði Samtök orkusveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum, sem Múlaþing er aðili a, fögnuðu ákvörðun ráðherra að ráðist strax í breytingar. Létu samtökin meðal annars bóka að: „Samtökin telja það ekki þola bið að tryggja nægt framboð grænnar orku um allt land á ásættanlegu verði fyrir almenning og fyrirtæki. Ráðast þarf í nauðsynlegar lagabreytingar og einfalda stjórnsýslu til að rjúfa kyrrstöðu sem alltof lengi hefur verið í orkumálum.“
Helgi Hlynur mótfallinn
Undir þessa bókun tók meirihluti byggðaráðs Múlaþings auk þess að ítreka þá afstöðu að sveitarfélög njóti sanngjarnari tekna af orkumannvirkjum en raunin hefur verið. Helgi Hlynur Ásgrímsson, VG, var þó ekki sama sinnis. Bar hann sjálfur fram annars konar bókun í kjölfarið:
„Ég tek ekki undir ofangreinda bókun að neinu leyti og hafna innihaldi hennar að fullu. Ég felst ekki á að það sé orkuskortur á Íslandi þó framboðið nái ekki að uppfylla allan þann orkuþorsta sem uppi er. Það er auk þess ekkert sem bendir til að þó við stíflum allar ár og læki og setjum upp vindmyllur í öllum fjöllum landsins að það muni seðja þorsta orkukapítalistanna. Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum ættum frekar að krefja orkumálaráðherra um að stöðva verðhækkanir á orku til heimila í landinu og smærri og meðalstórra íslenskra fyrirtækja sem hefur ekkert með framboð orku að gera heldu kauphallarfyrirkomulag með sölu raforku. Það að íslensk heimili séu látinn keppa við erlend orkufrek gagnaver á uppboðsmarkaði með raforku stappar nærri sturlun.“
Búist er við að ráðherra leggi fram lagabreytingar sínar á allra næstu misserum.
Vafi hefur lengi leikið á tilteknum ákvæðum í stjórn vatnamála sem síðasta ríkisstjórn gerði ekkert með þrátt fyrir allnokkrar ábendingar. Myndin frá Orkusölunni tengist fréttinni ekki beint.