Fallast ekki á vegtengingu frá frístundabyggð við Hafrafell inn á Hringveginn

Bæði Vegagerðin og umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings setja sig gegn þeim óskum eigenda landsins Hafrafells í Fellum að tengja frístundabyggð þar beint við Hringveginn.

Mun þetta vera í annað sinn sem landeigendur við Hafrafell 1 í Fellum, við syðri enda Urriðavatns, fara þess á leit að fá að gera beinan veg frá frístundasvæði inn á þjóðveginn en á svæðinu eru einar tíu frístundalóðir.

Í fyrstu atrennu lá vegtenging landeigenda lítið eitt norðar en nú er hugmyndin en þá reyndist reyndist bilið milli þess vegar og Hafrafellsvegar of lítið samkvæmt lágmarkskröfum um fjarlægðir milli vegamóta á Hringveginum. Að auki var slíkt talið ógna vegöryggi þar sem á þeim stað er kröpp beygja og aukin hætta á staðbundinni hálku.

Eilítil færsla vegtengingarinnar hefur ekki breytt þeirri skoðun bæði Vegagerðar og umhverfis- og framkvæmdaráðs að beinn vegur frá frístundabyggð að Hringvegi sé ekki fýsilegur kostur. Bendir ráðið landeigendum á að tenging frá frístundabyggð inn á Hafrafellsveg sé æskilegasta lausnin enda sé þar um formlegan héraðsveg að ræða sem Vegagerðin hafi umsjón með.

Yfirlitsmynd Vegagerðarinnar sýnir Hafrafellsveg í bláu og Hringveginn í rauðu. Landeigendur Hafrafells vilja beina vegtengingu við frístundabyggð neðst til hægri á myndinni beint undan syðri enda Urriðavatns. Skjáskot

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.