Skip to main content

Fallast ekki á vegtengingu frá frístundabyggð við Hafrafell inn á Hringveginn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. júl 2024 10:03Uppfært 24. júl 2024 10:05

Bæði Vegagerðin og umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings setja sig gegn þeim óskum eigenda landsins Hafrafells í Fellum að tengja frístundabyggð þar beint við Hringveginn.

Mun þetta vera í annað sinn sem landeigendur við Hafrafell 1 í Fellum, við syðri enda Urriðavatns, fara þess á leit að fá að gera beinan veg frá frístundasvæði inn á þjóðveginn en á svæðinu eru einar tíu frístundalóðir.

Í fyrstu atrennu lá vegtenging landeigenda lítið eitt norðar en nú er hugmyndin en þá reyndist reyndist bilið milli þess vegar og Hafrafellsvegar of lítið samkvæmt lágmarkskröfum um fjarlægðir milli vegamóta á Hringveginum. Að auki var slíkt talið ógna vegöryggi þar sem á þeim stað er kröpp beygja og aukin hætta á staðbundinni hálku.

Eilítil færsla vegtengingarinnar hefur ekki breytt þeirri skoðun bæði Vegagerðar og umhverfis- og framkvæmdaráðs að beinn vegur frá frístundabyggð að Hringvegi sé ekki fýsilegur kostur. Bendir ráðið landeigendum á að tenging frá frístundabyggð inn á Hafrafellsveg sé æskilegasta lausnin enda sé þar um formlegan héraðsveg að ræða sem Vegagerðin hafi umsjón með.

Yfirlitsmynd Vegagerðarinnar sýnir Hafrafellsveg í bláu og Hringveginn í rauðu. Landeigendur Hafrafells vilja beina vegtengingu við frístundabyggð neðst til hægri á myndinni beint undan syðri enda Urriðavatns. Skjáskot