Skip to main content

Fallið frá kröfum um að Skrúður og Bjarnarey verði þjóðlendur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. sep 2025 10:03Uppfært 16. sep 2025 10:59

Fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkisins, hefur fallið frá nærri öllum þjóðlendukröfum ríkisins í eyjar og sker á Austfjörðum. Óbyggðanefnd mun aðeins þurfa að úrskurða um örfáa staði á svæðinu.


Ríkið lýsti fyrst kröfum í eyjar og sker í febrúar í fyrra. Þá var Papey eina eyjan sem var undanskilin kröfum. Ráðherra endurskoðaði kröfurnar í kjölfar mótmæla og birti nýjar kröfur í október fyrir ári.

Þá höfðu kröfur í marga staði verið dregnar til baka, meðal annars í Hafnarhólma á Borgarfirði. Eftir stóðu kröfur í 105 eyjar og sker á Austurlandi, sem í skilgreiningu Óbyggðanefndar eru báðar Múlasýslurnar og Skaftafellssýslurnar.

Morgunblaðið greindi fyrst fjölmiðla frá því að ráðuneytið hefði á föstudag sent nefndinni bréf þar sem fallið er frá enn fleiri kröfum. Í því segir meðal annars að eyjar og sker tilheyri jörðum þar ef þeirra er getið í landamerkjabréfi, eða fjallað um nýtingu þeirra af viðkomandi jörð í áreiðanlegum heimildum.

Fallið frá kröfum í helstu eyjar


Á þessu víðfeðma svæði standa þá eftir kröfur í 25 eyjar og sker, um fjórðungur þeirra sem haldið var inni eftir síðustu yfirferð. Meðal þeirra staða sem ríkið fer fram á úrskurð um eru Svertlingar á Héraðsflóa, Gvöndarnessfles milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar og Gerpisfles.

Bjarnarey, milli Vopnafjarðar og Héraðsflóa og Skrúður á Fáskrúðsfirði eru meðal þekktustu staðanna sem fallið er frá kröfum í á Austfjörðum. Einnig má nefna Seley úti fyrir Reyðarfirði og þann hluta Hólmanna sem kröfur voru gerðar í.

Í kortasjá Óbyggðanefndar er hægt að sjá stöðu krafna, staðir sem eftir standa eru bláir en þeir sem nú er fallið frá eru fjólubláir.