Skip to main content

Fann á ferðamönnum hversu dramatísk sagan um Höllu og Blóðbrekku væri

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. ágú 2025 15:26Uppfært 11. ágú 2025 15:41

„Saklaust blóð í snjó“ er titill fimmtu skáldsögu Ásgeirs Hvítaskálds sem kemur út á næstunni. Hún byggir á austfirskri sögu frá 18. öld um forboðna ást og grimmileg örlög ungrar stúlku.


„Ég var einhvern tíma að leiðseigja í rútu og þegar við komum út úr gömlu Oddsskarðsgöngunum fann ég að ég hafði ekkert að segja. Þá fór bílstjórinn að segja mér söguna um Blóðbrekku.

Ég endursagði hana fyrir farþegana sem fannst hún yfirgengilega spennandi. Ég skynjaði að það var mikil lukka að segja hana á leiðinni niður,“ segir Ásgeir.

Forboðin ást


Sagan sem hann vísar til gerist veturinn 1726. Halla þessi var ung vinnukona á bæ í Helgustaðahreppi sem átti í ástarsambandi við son prestsins og varð ólétt. Þessi ráðahagur hugnaðist prestinum ekki.

„Presturinn var á móti sambandinu því Halla var af lægri stétt, föðurlaus og vinnuhjú. Hann sendi strákinn í guðfræðinám til Kaupmannahafnar. Strákurinn kunni ekki við það og kom aftur um hávetur, sem tíðkaðist ekki í þá daga. Hann húkkaði sér far á kútter og ætlaði að finna Höllu.“

Halla hafði verið rekin af bæ því húsráðendur vildu ekki að óskilgetið barn fæddist á þeirra bæ. Hún lagði því á brattann upp úr Reyðarfirði og yfir Oddsskarðið. Þar fann hún stein til að hvílast undir og sofnaði en vaknaði aldrei aftur. Barnið var þá fætt og gátu leitarmenn rakið blóðslóðina í snjónum. Heitir þar síðar Blóðbrekka og Höllusteinn.

Of stór fyrir stuttmynd


Ásgeir segist hafa heyrt söguna aftur og oft á Eskifirði og fór að leita frekari heimilda. Hann sótti upphaflega um styrk til Kvikmyndasjóðs til að gera stuttmynd en var neitað. „Í svarinu var mér bent á að sagan útheimti meira en stuttmynd og þess vegna ákvað ég að skrifa skáldsögu því þá gat ég skrifað allt sem ég vildi. Mér finnst það hafa komið vel út.“

Ásgeir hefur sótt nokkuð í austfirska sögu í síðustu verkum sínum. Árið 2022 gaf hann út Morðið í Naphorni sem byggir líka á atburðum frá 18. öld og leiddu til síðustu aftökunnar á Austfjörðum.

Hann er búinn að skrifa bókina og er að ljúka fjármögnun útgáfunnar á Karolina Fund. „Þar er hægt að heita á útgáfuna gegn því að fara í gönguferð í spor Höllu. Það eru nokkrir búnir að velja þann möguleika. Þess vegna er ég byrjaður að þjálfa mig því þessi leið með 600 metra hækkun er svakaleg.“

Hann hefur síðan reglulega notað söguna í leiðsögn. „Þetta er rosaleg saga en líka klassísk og þess vegna nota ég hana alltaf.“