Skip to main content

Farfuglarnir láta sumir bíða eftir sér

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. maí 2022 11:06Uppfært 12. maí 2022 11:36

„Því miður er ekki að hægt að staðfesta að farfuglarnir séu allir komnir enn en fjöldi þeirra sem eru þó komnir virðist vera í meðallagi miðað við fyrri ár,“ segir Halldór Walter Stefánsson, fuglafræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.

Um liðna helgi fór fram árlega fuglatalning og skoðun um leið á vegum stofnunarinnar í samstarfi við Ferðafélag Fjarðabyggðar og var gengið bæði frá Reyðarfirði og Neskaupstað til leitar en biðlað var til almennings að taka þátt og hjálpa. Halldór segir þátttökuna hafa verið í dræmari kantinum að þessu sinni sem hafi auðvitað áhrif á svæði sem næst að skoða.

„Við rákumst ekki á neina óvænta flækingsfugla að þessu sinni og ekki sáust heldur allir þeir farfuglar sem hingað koma jafnan á hverju ári. Fjöldi fuglanna í meðallagi myndi ég segja en það er svo sem ekki óeðlilegt að sumar tegundir farfugla láti bíða eftir sér. Það eru ýmsar breytur sem hafa áhrif á hvenær þeir koma.“

Fjölmargar tegundir farfugla setjast að á Austurlandi yfir sumartímann og stöku sinnum sést til nýrra tegunda en ekki að þessu sinni. Mynd Náttúrustofa Austurlands