Farið að bera á vöruskorti á Vopnafirði: Mokstri hætt vegna veðurs
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. jan 2013 16:22 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Farið er að bera á vöruskorti á Vopnafirði en þangað hafa vegasamgöngur verið afar takmarkaðar síðan á laugardag. Reynt var að opna Vopnafjarðarheiði en mokstri þar var hætt vegna veðurs.
„Vopnfirðingar búa enn svo vel að eiga mjólk í ísskápum sínum þar eð Kauptún átti nokkrar birgðir. En hún mun smám saman hverfa eins og rjóminn og súrmjólkin, brauðið og bakkelsið,“ segir Magnús Már Þorvaldsson, fulltrúi á skrifstofu Vopnafjarðarhrepps.
Haldið var þorrablót bæði á Vopnafirði og Þórshöfn á laugardagskvöld. Einhverjir gestir eru enn á Vopnafirði sem ætluðu í austurátt. „Vopnafjarðarheiðin lokaði á flóttaleiðina,“ segir Magnús.
Fært er til Akureyrar eftir norðurströndinni en Hellisheiði og Vopnafjarðarheiði eru lokaðar. Reynt var að moka Vopnafjarðarheiði um miðjan dag en þeim tilraunum var hætt vegna veðurs.