Skip to main content

Farið fram á 7-8 ára fangelsi í Vopnafjarðarmáli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. maí 2025 11:44Uppfært 12. maí 2025 11:45

Saksóknari fer fram á 7-8 ára fangelsi yfir Jóni Þór Dagbjartssyni sem ákærður er fyrir að reyna að bana fyrrum sambýliskonu sinni á Vopnafirði í október í fyrra. Jón Þór neitar sök á þeirri forsendu að hann hafi verði ósakhæfur á verknaðarstundu.


Þetta var meðal þess sem fram kom í málflutningi saksóknara og verjanda þegar aðalmeðferð málsins lauk í Héraðsdómi Austurlands á föstudag.

Jón Þór er ákærður fyrir tilraun til manndráps. Þar er lágmarksrefsing fimm ára fangelsi. Jón Þór sætir hins vegar ákæru fyrir fleiri brot. Í fyrsta lagi fyrir húsbrot og kynferðislega áreitni gagnvart sambýliskonunni fyrrverandi, Hafdísi Báru Óskarsdóttur, sem og líkamsárás og vopnalagabrot í nóvember 2024.

Ákæruvaldið telur ásetning hafa verið fyrir hendi


Hinn meinta tilraun til manndráps er aðalmálið í ákærunni. Ákæruvaldið heldur því fram að um ásetning hafi verið að ræða og er þar vísað til þess að í upptöku úr öryggismyndavél heyrist Jón Þór segja að hann hafi ætlað að „kála henni.“

Þá hefur Hafdís Bára borið að hann hafi hafi, bæði þegar hann greip fyrst til árásarvopnsins og þegar hann þrengdi að öndunarvegi, talað um að kála henni. Af hálfu Karls Inga Vilbergssonar, saksóknara í málinu, var bent á að Jón Þór hefði ekki neitað þeirri frásögn en hann segist ekki muna eftir árásinni.

Í öðru lagi leggur ákæruvaldið upp frá því að árásin hafi verið sérlega hættuleg. Er þar meðal annars vísað til framburðar réttarmeinafræðings sem sagði Hafdísi Báru hafa verið með punktblæðingar í andliti. Til þess að framkalla þær þarf að þrengja verulega að hæðum í hálsi í að minnsta kosti 15 sekúndur.

Í þriðja lagi heldur saksóknari því fram að Jón Þór hafi alls ekki hætt sjálfviljugur við verknaðinn heldur hafi komið á hann styggð þegar vinkona Hafdísar kom út úr íbúðarhúsi og gekk áleiðis að skemmunni þar sem atlagan átti sér stað. Karl Ingi sagði að á upptökunni heyrist þegar hundur byrji að gelta þegar vinkonan komi út og það hafi Jón Þór vitað að þýddi að einhver væri að koma.

Mat á sakhæfi í höndum dómara en ekki geðlækna


Aðalvörn Jóns Þórs byggist á að hann hafi verið ósakhæfur á verknaðarstundu, en samkvæmt 15. grein hegningarlaga, skal ekki refsa þeim sem eru óhæfir til að stjórna gjörðum sínum vegna geðveiki eða rænuskerðingar.

Geðlæknir, sem verið hefur með Jón til meðferðar, sagði við réttarhöldin að hann glímdi við alvarlega áfallastreituröskun vegna atburða úr æsku og hann kynni að hafa farið í hugrof sem þýði að hann meðtaki ekki það sem gerist í núinu. Geðlæknar, sem unnu geðmat fyrir dóminn, mátu Jón Þór sakhæfan. Hlynur Jónsson, verjandi Jóns Þórs, lagði áherslu á að endanlegt mat á sakhæfi væri í höndum dómaranna.

Til vara er þess krafist að Jón Þór sé dæmdur til vægustu refsingar. Þar er aftur komið inn á heimfærslu brotsins, hvort um sé að ræða tilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás en önnur viðurlög eiga við um. Af hálfu varnarinnar er bent á að Jón Þór hafi alltaf neitað ásetningi og af sjálfsdáðum látið af árásinni.

Um ákæru vegna atburða á fyrrum heimili þeirra nokkrum dögum fyrr fer Jón Þór fram á sýknu þar sem sú háttsemi sem honum er gefin að sök sé ósönnuð. Sama á við um árásina á karlmanna á Vopnafirði árið 2023.

Sex milljónir í miskabætur


Að lokum fer hann fram á sýknu í vopnalagabrotinu, en honum var gefið að sök að hafa verið með 14 óskráð vopn á heimili sínu sem ekki voru rétt geymd. Þar snýst vörn Jóns Þórs um að hann hafi verið að vinna í að fá þau skráð og ekki haft ásetning uppi um að brjóta lögin. Lögreglumenn frá Vopnafirði, sem komu fyrir dóminn, staðfestu að þeir hefðu séð að minnsta kosti hluta vopnanna á heimili þegar þeir komu þangað í einka- eða vinnuerindum.

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, réttargæslumaður Hafdísar Báru, fór fram á sex milljónir króna í miskabætur fyrir hennar hönd. Þá fer hún fram á skaðabætur fyrir fjártjón vegna útlagðs kostnaðar. Læknar sem komu fyrir dóminn sögðu að Hafdís hefði hlotið taugaskaða og misst mátt í hægri handlegg eftir árásina, en hann væri koma aftur. Sálfræðingur hennar sagði líðan hennar hafa breyst verulega til hins verra eftir atburðina en batahorfur hennar til að geta lifað með því sem gerðist væru góðar.