Fáskrúðsfjörður í sögubækurnar
„Þetta var töluvert flókið því það var ekki í nein opinber skjala- eða myndasöfn í bænum að sækja efni,“ segir Smári Geirsson, en hann leggur nú lokahönd á útgáfu sögu Fáskrúðsfjarðar í þremur bindum alls.
Ráðgert er að sagan verði gefin út síðsumars eða með haustinu í síðasta lagi en um er að ræða þrjú bindi alls sem Smári hefur unnið að allar götur síðan 2010 þegar hann fyrst hóf að viða að sér efni.
„Það var svo 2015 sem ég hóf sjálf skrifin og nú erum við að ljúka þessu með prófarkalestri og almennum frágangi þessar vikurnar. Þetta gekk vel upp að lokum með aðstoð fjölmargra bæjarbúa og ekki síður annarra aðila í bæjarfélaginu. Nú styttist í að þessu ljúki og þetta á að koma út síðar á árinu.“
Það er Fjarðabyggð sem hefur styrkt verkefnið frá upphafi sem hefur alls kostað liðlega 20 milljónir króna hingað til. Auk þess hafa heimaaðilar á Fáskrúðsfirði lagt til fjármagn til viðbótar.
Mynd: Fáskrúðsfjörður í vetrarbúningi. Saga þessa merkilega bæjarfélags kemur loks fyrir sjónir almennings síðar á árinu. Mynd GG