Skip to main content

Fasteignagjöld aðeins hærri á Seltjarnarnesi en á Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. jún 2023 15:19Uppfært 15. jún 2023 09:48

Samkvæmt nýlegri úttekt Heimildarinnar gerir stærstur hluti hátekjufólks meðal Íslendinga sér heimili á Seltjarnarnesi. Þar eru greidd hæstu fasteignagjöldin á landsvísu miðað við svokallaða viðmiðunareign. Það eru hins vegar íbúar Egilsstaða sem næst koma í röðinni og hvergi í landinu greiða fasteignaeigendur meira fyrir fráveitu.

Þó ekkert samasemmerki sé á milli tekna fólks og fasteignagjalda á hverjum stað fyrir sig, en fasteignagjöld eru einn helsti tekjustofn hvers sveitarfélags fyrir sig, er athyglisvert að fasteignagjöld viðmiðunareignar séu svipuð á Seltjarnarnesinu og á Egilsstöðum. Meðal fermetraverð á Seltjarnarnesi hefur verið um eða yfir hálfri milljón króna síðustu árin meðan sú tala fyrir eignir á Egilsstöðum hefur verið helmingi lægri eða kringum 250 til 270 þúsund krónur.

Það er engu að síður niðurstaða Byggðastofnunar sem rýnt hefur í nýtt fasteignamat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem var opinberað nýlega. Þar miðar stofnunin við svokallaða viðmiðunareign sem er einbýlishús sem er 161,1 m2 að grunnfleti og 476 m3. Stærð lóðar er 808 m2. 

Samkvæmt þeim samanburði greiða fasteignaeigendur á Seltjarnarnesi 537 þúsund krónur í fasteignagjöld árlega meðan íbúar á Egilsstöðum greiða 496 þúsund krónur. Íbúar Fellabæjar eru líka á topp tíu miðað við lista Byggðastofnunar en þeim er gert að greiða 461 þúsund krónur í fasteignagjöld per viðmiðunareignina. Það á pari við gjöld húseigenda í einu elsta og dýrasta hverfi Reykjavíkur: Þingholtunum.

Ólíkt tölfræði sem HMS birti með uppfærðu fasteignamati og tekur aðeins til mats ársins á undan í samanburðinum miðar Byggðastofnun við mun lengri tíma eða allt að tíu ár aftur í tímann hér austanlands. Samkvæmt mati HMS hækkaði fasteignamat milli ára allra mest á Seyðisfirði eða um 40 prósent. En sé kafað í tölur Byggðastofnunar frá árinu 2014 hefur fasteignamat hækkað langminnst á Seyðisfirði af öllum kjörnum Austurlands eða um 27 prósent alls á níu árum. Til samanburðar hækkaði fasteignamat viðmiðunareignar á Vopnafirði um 62 prósent á sama tímabili.

Hér má lesa skýrslu Byggðastofnunar í heild sinni.